Almannavarnir boða til upplýsingafundar í björgunarmiðstöðinni í Skógahlíð klukkan 11 á morgun. Þá hefur verið ákveðið að halda upplýsingafundi á miðvikudag og föstudag á sama tíma og á sama stað.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef almannavarna.
Á fundinum á morgun mun Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir, fagstjóri endurreisnar hjá almannavörnum, fara yfir starfsemi þjónustumiðstöðvar almannavarna sem opnuð var á miðvikudag.
Einnig verður Jóhanna Lilja Birgisdóttir, yfirsálfræðingur á félagsþjónustu- og fræðslusviði hjá Grindavíkurbæ, á fundinum. Hún mun fara yfir stöðu skólamála.
Fundinum stýrir Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna.