„Söfnunin er búin að vera í viku og hún gengur ágætlega,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson, teymisstjóri fjáröflunar- og kynningarsviðs Rauða krossins á Íslandi, inntur eftir því hvernig söfnunin fyrir Grindvíkinga gangi.
Segir hann að henni hafi fyrst og fremst verið hrundið af stað til að styðja við Grindvíkinga vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga.
„En einnig til að styrkja við neyðarvarnir Rauða krossins, meðal annars búnað sem þarf til. Nú opnuðum við þrjár fjöldahjálpastöðvar um síðustu helgi þegar rýmingin var og það er náttúrulega hlutverk okkar en til þess þurfum við að eiga töluvert mikið af búnaði,“ segir Gylfi Þór og nefnir í því samhengi meðal annars sængur og bedda.
„Söfnunin er þó að mestu leyti og nær öllu leyti til að aðstoða Grindvíkinga.“
Að sögn Gylfa Þórs hafa styrkirnir aðallega komið frá einstaklingum hingað til.
„Við hvetjum fyrirtæki að sjálfsögðu til þess að taka þátt í þessu með okkur. Við höfum staðið í svona söfnunum áður, meðal annars þegar flóðin féllu á Seyðisfirði. Þá var bara skipuð svona úthlutunarnefnd og fólk gat þá sótt fjármuni til nefndarinnar, það er að segja sótt um styrki. Við munum hafa svipað fyrirkomulag á því núna.“
Þá tekur hann fram að söfnunin fái að lifa aðeins áfram og því geti áhugasamir enn styrkt málefnið. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Rauða krossins.