Land rís mun hraðar við Svartsengi

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur.
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur. Samsett mynd

Land við Svartsengi rís nú mun hraðar en það gerði fyrir jarðskjálftahrinuna 10. nóvember, eða um 5,5 sinnum hraðar. Þá er innflæði kviku um tíu sinnum meira.

Þetta segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur í samtali við mbl.is.

„Flæði kviku inn í þetta geymsluhólf sem er á 4,5 kílómetra dýpi er 8 til 10 sinnum meira miða við það sem menn voru að tala um fyrir 10. nóvember. Þá var þetta á bilinu 5 til 7 rúmmetrar á sekúndu, en er nú um það bil 50 rúmmetrar á sekúndu,“ segir Þorvaldur.

Landið seig í kjölfar atburðanna 10. nóvember, þegar kvikan hljóp undir Grindavíkurveg og austur undir Sundhnúkagíga.

„Landið rís því mun hraðar núna. Þetta helst í hendur þar sem kvikan er að búa til pláss og lyftir yfirborði jarðar upp,“ segir Þorvaldur.

Svartsengi nái fyrri stöðu

Ef þessi hraði heldur áfram telur Þorvaldur að Svartsengi verði búið að ná sinni fyrri stöðu eftir 5 til 15 daga.

„Hvað gerist þá, er erfitt að segja til um. Við getum fengið gos, við getum fengið endurtekningu á 10. nóvember eða bara eitthvað alveg nýtt.“

Eru líkurnar á eldgosi á þessu svæði að aukast?

„Mér finnst líkurnar alltaf verða meiri og meiri á gosi á norðanverðri Sundhnúkaröðinni eða þá í Illahrauni. Mér finnst líkurnar á gosi þar vera að aukast vegna landrissins sem er þarna.“

Komin inn í eldgosatímabil

Þorvaldur telur mikilvægt að huga að fyrirbyggjandi aðgerðum þar sem nýr veruleiki blasir við.

„Við erum komin inn í nýjan raunveruleika og inn í eldgosatímabil og þar af leiðandi er mjög uppbyggilegt fyrir okkur að hugsa um í hvers konar fyrirbyggjandi aðgerðir við getum við farið.

Hvað getum við gert áður en kemur til goss sem mun hjálpa okkur að draga úr áhrifum þess á samfélagið og innviði?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert