„Skil vel að íbúar séu óþreyjufullir“

Menn frá Náttúruhamfaratryggingum Íslands að störfum í gær.
Menn frá Náttúruhamfaratryggingum Íslands að störfum í gær. Mynd/Náttúruhamfaratrygging Íslands

Náttúruhamfaratrygging Íslands er búin að skanna þau svæði í Grindavík þar sem útlit er fyrir að að mesta tjónið hafi orðið vegna jarðhræringanna sem verið hafa þar að undanförnu.

Tjónamat hófst í gær á húsum í Grindavík sem vitað er að orðið hafa fyrir verulegu tjóni. Náttúruhamfaratrygging Íslands gerði einnig samning við verkfræðistofuna Eflu um að aðstoða við að þrívíddarmynda Grindavík með drónum til að unnt sé að átta sig á breytingum sem verða frá einum tíma til annars.

Flókið að stilla saman eigendur húsanna við matsmennina

„Þetta hefur gengið vel en það eru ákveðnar tafir sem fylgja því að vera inn á neyðarrýmdu svæði. Það er flókið að stilla saman eigendur húsanna við matsmennina en þetta gekk vel í mjög góðu samstarfi við eigendur og viðbragðsaðila á svæðinu. Eigendur allra þeirra eigna sem við vorum að skoða gátu komist inn á svæðið og verið viðstaddir,” segir Hulda Ragnheiður Árnadóttir, forstjóri Náttúruhamfaratryggingar Íslands, við mbl.is.

Hulda Ragnheiður segir að þrír hópar matsmannateyma hafi tekið þátt í vinnunni í gær en ekki er farið inn í nein hús án þess að eigendur eða fulltrúar séu viðstaddir.

Tjónamat hófst í gær á húsum í Grindavík sem vitað …
Tjónamat hófst í gær á húsum í Grindavík sem vitað er að orðið hafa fyrir verulegu tjóni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við vorum í gær að skoða þau hús sem hafa orðið fyrir hvað mestum skemmdum. Við eigum eftir að fara margoft inn á þetta svæði en í augnablikinu erum við að meta hvenær sé tímabært að skoða tjón vegna þess að atburðurinn er enn í fullum gangi. Hann er að eiga sér stað,” segir Hulda Ragnheiður.

Óraunverulegar aðstæður

Hulda Ragnheiður segir að þetta sér langtímaverkefni en sjálf segist hún hafa farið til Grindavíkur og skoðað aðstæður á svæðinu.

„Þetta eru óraunverulegar aðstæður sem eru svo margsnúnar. Það er mjög erfitt að skipuleggja aðgerðir inni á svæðinu vegna flækjustigsins sem fylgir því að íbúarnir eru ekki í bænum. Það þarf að ferja þá inn á svæðið í fylgd með björgunarsveitarfólki og þeir þurfa að vera í viðeigandi öryggisbúnaði,” segir Hulda Ragnheiður.

Hulda Ragnheiður segist ekki eiga von á því að tjónamatið haldi áfram á morgun.

„Það eru ekki forsendur til þess eins og er vegna þess að atburðurinn stendur ennþá yfir og hús sem metum í dag getur verið með allt öðrum skemmdum þegar við vöknum í fyrramálið. Ég skil vel að íbúar séu óþreyjufullir en við verðum að taka okkur núna næstu daga til þess að meta hvernig við stöndum að því sem framundan er,” segir Hulda Ragnheiður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert