Karlotta Líf Sumarliðadóttir
Snarpur jarðskjálfti af stærðinni 3,7 varð á Reykjanesskaga, um þrjá kílómetra vestur af Kleifarvatni, rétt eftir klukkan hálf sex í morgun. Skjálftinn fannst vel á höfuðborgarsvæðinu.
Skjálftinn varð talsvert austar en kvikugangurinn að sögn Einars Hjörleifssonar, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.
Líklegt er að um gikkskjálfta sé að ræða vegna mikilla spennubreytinga á svæðinu.
Alls hafa um 370 smáskjálftar mælst yfir kvikuganginum norðnorðaustur af Grindavík frá miðnætti.
Engin teljandi merki eru um breytta virkni yfir ganginum í nótt og gosórói hefur ekki mælst á jarðskjálftamælum Veðurstofunnar á svæðinu.
Um 1.800 skjálftar mældust yfir kvikuganginum í gær.