Frá miðnætti hafa um 1.400 skjálftar mælst yfir kvikuganginum á Reykjanesskaga. Fjórir þeirra hafa verið yfir 2 að stærð.
Að meðaltali hafa 60-70 jarðskjálftar mælst á klukkustund.
Þetta segir Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
„Við fylgjumst áfram með aflögunargögnum í rauntíma. Við höfum ekki séð áberandi breytingar á þeim í dag,“ segir Einar.
Í fyrramálið munu vísindamenn Veðurstofunnar fara yfir gögn helgarinnar. Í kjölfarið mun koma fréttatilkynning frá þeim.