Auglýst hefur verið eftir nýjum forstjóra Veðurstofu Íslands, en embættið er nú laust eftir að Árni Snorrason mun láta af embætti vegna aldurs. Árni hefur sinnt embættinu síðan árið 2010.
Í auglýsingu ráðuneytisins segir að skipað sé í embættið til fimm ára í senn, en forstjóri ber ábyrgð gagnvart ráðherra í samræmi við lög og skipurit stofnunarinnar og mótar helstu áherslur, verkefni og starfshætti Veðurstofunnar, auk þess að bera stjórnunarlega og fjárhagslega ábyrgð á rekstri og faglegri starfsemi stofnunarinnar.
Skipunartími Árna rann út fyrr á þessu ári, en hann sat áfram meðan til skoðunar voru sameiningarhugmyndir stofnana undir umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytinu. Upphaflega var áformað að sameina Náttúrufræðistofnun Íslands, Veðurstofu Íslands, Landmælingar Íslands, ÍSOR og Náttúrurannsóknarstöðina við Mývatn undir Náttúruvísindastofnun, en í sumar var ákveðið að taka Veðurstofuna og ÍSOR út fyrir þær sameiningarhugmyndir.
Hæfniskröfur eru almennt orðaðar í auglýsingunni, en farið er fram á framhaldsmenntun á háskólastigi sem nýtist í starfi: „Leitað er að leiðtoga sem hefur framhaldsmenntun á háskólastigi sem nýtist í starfi og þekkir og iðkar öguð og skilvirk vinnubrögð og vinnur vel undir álagi. Einnig er leitað eftir frambærilegum einstaklingi sem hefur góða hæfni til að tjá sig í ræðu og riti á bæði íslensku og ensku. Við mat á umsækjendum er miðað við kjörmynd stjórnenda út frá stjórnendastefnu ríkisins.“
Tekið er fram að Veðurstofan gegni lykilhlutverki í að stuðla að bættu öryggi almennings, eigna og innviða gagnvart öflum náttúrunnar ásamt því að styðja sjálfbæra nýtingu hennar og samfélagslega hagkvæmni. Það gerir stofnunin með rauntímavöktun, öflun, varðveislu og úrvinnslu gagna og rannsókna, sem og miðlun upplýsinga á helstu eðlisþáttum jarðarinnar, þ.e. lofti, vatni, jörð, snjó, jöklum og hafi.
Á Veðurstofunni starfa um 145 manns með fjölbreytta menntun og starfsreynslu sem spannar mörg fræðasvið. Auk þess starfa um 70 manns við athugana- og eftirlitsstörf víðs vegar um landið.