Tæplega 400 flóttamenn lögðu leið sína í Hafnafjarðarkirkju á laugardag þar sem hjálparsamtökin GETA héldu ókeypis fatamarkað.
Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir, framkvæmdastjóri og stofnandi samtakanna, segir fatamarkaðinn hafa heppnast vel, en þetta mun vera í annað sinn sem samtökin standa fyrir viðburði af þessu tagi.
„Það gekk rosalega vel,“ segir Ingunn í samtali við mbl.is.
„Það kom alveg svakalega mikið magn af fötum og hlutum frá fólki. Við vorum með söfnun á föstudaginn þar sem fólk gat komið með það sem það vildi gefa og við höfðum varla í við að taka á móti þessu.“
Fatamarkaðurinn var vel sóttur, en að sögn Ingunnar mættu helmingi fleiri en þegar hjálparsamtökin héldu sinn fyrsta fatamarkað fyrir ári síðan.
„Við vorum búin að auglýsa þetta vel. Við vorum í samstafi við Vinnumálastofnun þannig að það voru hengd upp plaköt í öllum úrræðum þar sem umsækjendur um vernd búa á vegum stofnunarinnar. Svo auglýstum við þetta líka á Facebook,“ segir Ingunn.
„Við túlkum hugtakið flóttafólk mjög vítt, það eru bara þeir sem telja sig þurfa á þessu halda. Þannig að þetta var bæði fólk sem eru umsækjendur um vernd eða komin með vernd og eru að stíga sín fyrstu skref inn í samfélagið.
Svo opnuðum við fatamarkaðinn klukkutíma fyrr fyrir fólk sem var að koma frá Grindavík til þess að þau gætu fengið að vera þarna í rólegheitum og engu áreiti.“
Á fatamarkaðinum störfuðu 20 sjálfboðaliðar á vegum hjálparsamtakanna og segir Ingunn það hafa komið í þeirra hlut að sjá um skipulag viðburðarins.
Hún segir fólki hafa verið hleypt inn í hópum og hafi hver einstaklingur mátt taka fimm hluti.
„Það sem okkur langaði að gera var að þau gætu upplifað sig eins og þau væru í alvöru verslun með því að borga með miðunum sínum. Og eftir að þau voru búin að borga vorum við með svolítið af minni hlutum sem þau gátu tekið eins og þau vildu af.“
Ingunn segist þakklát yfir mikilli og virkri þátttöku samfélagsins í aðdraganda markaðarins, en það sem eftir varð á laugardag var sent til Hjálpræðishersins.
„Fólkinu í nærsamfélaginu þótti svo vænt um að geta gefið hluti sem þau vissu að væru að fara beint til flóttafólks vegna þess að fólki finnst stundum erfitt að setja fína hluti í fatagáma því það veit ekki hvað verður um þá. Við erum ótrúlega þakklát samfélaginu fyrir að hafa brugðist svona vel við.“
Aðspurð segir Ingunn hjálparsamtökin GETA, sem stofnuð voru fyrir tæpum tveimur árum, hafa sprottið til í viðleitni til þess að mæta þörfinni sem fylgdi aukinni aðkomu flóttamanna í kjölfar stríðsins í Úkraínu.
„Eftir að Úkraínustríðið braust út urðum við vör við það að það væri ofboðslega mikið af flóttafólki í Hafnarfirði en öll þjónusta og úrræði fyrir þau voru í Reykjavík. Og Rauði krossinn er með frábært starf í Reykjavík og Hjálpræðisherinn líka, en okkur langaði að gera eitthvað fyrir þau hér í okkar nærsamfélagi sem að þau gætu sótt fótgangandi.“