„Ég trúi því að skiptastjóri fari að lögum, en mér finnst það fráleitt að endurkrefja fólkið um verktakalaun sem það hefur unnið fyrir,“ segir Hjálmar Jónsson, framkvæmdastjóri Blaðamannafélags Íslands, BÍ, í samtali við Morgunblaðið.
Hann var spurður álits á kröfum sem skiptastjóri þrotabús Torgs sem gaf út Fréttablaðið hefur sent nokkrum verktökum í blaðamennsku sem unnu fyrir Fréttablaðið þar sem þeir eru krafðir um endurgreiðslu verktakalauna vegna vinnu sinnar fyrir blaðið.
„Þetta eru vinnulaun og fráleitt að það gildi annað um þessi vinnulaun en laun þeirra sem eru skilgreindir sem launamenn. Það er skýr afstaða félagsins,“ segir Hjálmar og bendir á að oft á tíðum hafi þessir aðilar ekki verið verktakar að eigin frumkvæði.
Hjálmar segir að einn félagsmaður hafi leitað til BÍ vegna þessa, en kveðst vita um fleiri sem hafa fengið samskonar kröfu frá skiptastjóra Torgs.
Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.