Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri hjá Veðurstofu Íslands, segir að ný gögn staðfesti að kvika sé ennþá að flæða inn undir Svartsengi.
Benedikt rýndi i nýjustu gögn og gervitunglamyndir á samráðsfundi ásamt öðrum vísindamönnum í morgun og þar sást að landris mælist enn mikið við Svartsengi og talsvert hraðara en áður en kvikugangurinn myndaðist 10. nóvember.
„Það er kvika ennþá að flæða inn undir Svartsengi og við sjáum mjög hratt landris þar. Þetta er alls ekki óvænt. Þetta gerist nánast alltaf við svona atburði og við bjuggumst alveg við þessu. Við höfum svona aðeins verið að meta hversu stór hluti af þessu er innflæði og hversu stór hluti af þessu er gangurinn,“ sagði Benedikt Gunnar við mbl.is eftir fund almannavarna í Skógarhlíð í dag.
Skilaboðin frá ykkur síðustu daga hafa verið þau að það séu ennþá taldar miklar líkur á eldgosi. Hefur það eitthvað breyst?
„Nei það hefur ekkert breyst og það breytist ekkert á meðan við sjáum ennþá eitthvað flæði inn í kvikuganginn. Það getur komið gos hvenær sem er,“ segir Benedikt.
Benedikt segir að ekki séu taldar miklar líkur á að gos komi upp við Svartsengi heldur miklu frekar yfir kvikuganginum þar sem kvikan á auðveldast með að komast upp á yfirborðið.
„Eins og staðan er núna þá held ég að við verðum að horfa á þetta svæði við Hagafell sem líklegast þar sem komi gos. Þar erum við ennþá að sjá gliðnum og þar er kvikan mjög grunnt og er kominn upp fyrir 1 kílómeter. Við horfum á þetta svæði sem líklegast á að byrji að gjósa en við útilokum í raun ekkert,“ segir Benedikt.
Nú hefur jarðskjálftavirknin verið mjög svipuð síðustu daga. Hvað lesið þig út úr því?
„Við getum lesið tvennt út úr því. Það getur allt verið að róast og að slakna í ganginum og atburðarásin deyi út. Við höfum líka séð samskonar merki rétt fyrir gos. Við getum ekki útilokað ennþá að það sé það sem er í vændum. Það er mikil óvissa í kringum þetta og erfitt að meta líkur hvort sé að fara að gerast. Við gerum bara ráð fyrir því að það geti komið gos.“
Benedikt Gunnar segir að jarðskjálftarnir í og við Grindavík síðustu vikurnar hafi áhrif víðar á landinu og merki eru til dæmis um það að Selfoss hafi færst talsvert frá Reykjavík.
„Við sjáum færslur mjög langt í burtu frá Grindavík. Ég er ekki farinn að skoða nákvæmlega færslurnar á Selfossi en þær gætu verið einn sentimetri. Þetta tengist kvikuhlaupinu sem varð 10. nóvember. Það olli gríðarlegum færslum langt í burtu og er mjög sambærilegt því sem við sáum í Bárðarbungu. Þar sáum við færslur um allt land en það er eitthvað minna um það núna.“