Hættumat og mannafli forsenda aðgerða hvers dags

Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna hjá ríkislögreglustjóra, fjallaði á upplýsingafundi almannavarna …
Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna hjá ríkislögreglustjóra, fjallaði á upplýsingafundi almannavarna í samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð í dag, um skipulag þeirra umfangsmiklu aðgerða sem staðið hafa yfir í Grindavík frá því bærinn var rýmdur 10. nóvember. mbl.is/Arnþór

Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna hjá ríkislögreglustjóra, fjallaði á upplýsingafundi almannavarna í samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð í dag, um þær umfangsmiklu aðgerðir sem staðið hafa yfir í Grindavík frá því bærinn var rýmdur 10. nóvember.

Sagði hann skipulag aðgerða með þeim hætti að á hverjum degi væri unnið hættumat í samvinnu við Veðurstofu Íslands. Þá væri fjöldi viðbragðsaðila sem hægt verði að fá til starfa áætlaður á hverjum degi og út frá því væri fjöldi húsa og fyrirtækja ákveðinn sem hægt er að fara inn í dag hvern.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum stýrir framkvæmdinni

Sagði hann framkvæmdina vera undir stjórn lögreglustjórans á Suðurnesjum sem starfræki aðgerðastjórn í samvinnu við viðbragðsaðila en í Grindavík sé vettvangsstjórn sem sjái um að allt gangi áætlunum samkvæmt.

Þá sagði hann að hlutverk almannavarna væri að halda utan um stóru myndina og tengja alla saman til að allir hafi sömu sýn á verkefnið.

Áhersla á varnir hrauns frá kvikuganginum

Á fundinum var Víðir spurður út í framkvæmdir varnargarða. Sagði hann að áætlanir geri ráð fyrir að um 30-45 daga taki að reisa varnargarðana en framkvæmdir við gerð þeirra hófst á þriðjudaginn í seinustu viku. Hann sagði upphafsaðgerðir við garðana hafi gengið mjög vel og hraðar en við var búist.

Sagði hann að búið væri að brjóta framkvæmdina upp í margar einingar og að áhersla væri nú í ljósi líklegustu sviðmyndarinnar lögð á varnir hrauns sem kæmi frá kvikuganginum eins og hann er núna. Þó væri á sama tíma haldið áfram með vinnu við varnir vestan við Svartsengi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert