Herða verði reglur um ADHD-lyf

mbl.is/Sverrir

Formaður Lyfjafræðingafélags Íslands segir það mjög vont fyrir sjúklinga að vita ekki hvort og hvenær næsta sending af ADHD-lyfinu Elvanse Adult berst til landsins. Skortur hefur verið á lyfinu síðan í sumar og dæmi eru um að fólk keyri á milli apóteka í leit að þessu tiltekna lyfi. Um sjö þúsund manns á Íslandi eru á Elvanse, þriðjungur þeirra sem eru á ADHD-lyfjum af einhverju tagi.

„Fólk er að koma í þvílíkri örvæntingu í apótekin og hringir viðstöðulaust. Ég veit um apótek sem tók símann tímabundið úr sambandi. Svo veit fólk ekkert hvað það getur gert. Við erum að reyna að upplýsa fólk um að við vitum ekki hvenær þetta lyf kemur aftur eða hvort það verði áframhaldandi skortur. Af því að þetta klárast bara strax. Ég fékk einn pakka í mitt apótek og ég hefði getað selt hann svona 50 sinnum,“ segir Sigurbjörg Sæunn Guðmundsdóttir, formaður Lyfjafræðingafélags Íslands.

Að því er fram kom í Dagmálum Morgunblaðsins í síðustu viku er von á sendingu af Elvanse í lok mánaðar og samheitalyfi í byrjun desember.

Stríðir gegn verklagsreglum SÍ

Sigurbjörg segir að staldra verði við þá staðreynd að um sjö þúsund manns séu á þessu tiltekna ADHD-lyfi.

„Það er verið að setja fólk beint á þetta lyf, sem stríðir algerlega gegn verklagsreglum Sjúkratrygginga Íslands (SÍ). Þetta lyf er amfetamínafleiða, eins nálægt amfetamíni og ADHD-lyf verða. Þetta er eins og að bjóða fólki með höfuðverk morfín í æð án þess að prófa íbúfen fyrst. Það virkar vel en er klárlega ofmeðhöndlun,“ segir Sigurbjörg.

Hún ráðleggur oft sjúklingum að prófa að færa sig aftur yfir á lyf sem það hefur prófað áður. Þá komi í ljós að þetta var fyrsta ADHD-lyfið sem skrifað var upp á handa því.

„Ísland skortir verkferla fyrir lækna um þetta. Ég veit ekki til að það séu neinir verkferlar um hvað þú sem læknir megir ávísa miklu magni á ári, eins og er t.d. annars staðar á Norðurlöndum,“ segir Sigurbjörg.

„Ef rétt reynist að SÍ séu að veita skírteini fyrir Elvanse til þeirra sem ekki hafa farið á annað lyf áður og jafnvel eru með sögu um fíknisjúkdóm, þá eru lyfin að klárast á kostnað þeirra sem mest þurfa á þeim að halda. Lyfjaframleiðandinn gerði hreinlega ekki ráð fyrir þessari gríðarlegu sölu,“ segir hún.

Hefur ekki áhyggjur af hlutfallinu

Karl Reynir Einarsson, formaður Geðlæknafélags Íslands og framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsuvernd, segir í samtali við Morgunblaðið hann hafi ekki endilega áhyggjur af því að hátt hlutfall þeirra sem eru með ADHD séu á Elvanse. Það kunni að skýrast af því að Elvanse virki einfaldlega best fyrir þá.

Hann segir það koma sér á óvart ef Elvanse sé fyrsta lyfið sem skrifað er upp á fyrir sjúklinga því eins og Sigurbjörg segir kveða reglur SÍ á um að fyrst þurfi að reyna metýlfenidatlyf, eins og Concerta, áður en meðferð með Elvanse er samþykkt.

Karl Reynir segir að geðlækna á Íslandi skorti ekki endilega skýrari leiðbeiningar að því er varðar greiningu og meðferð á ADHD.

„Mögulega mætti þó vera meira aðhald varðandi skammtastærðir sem í sumum tilfellum eru því miður óhóflegar og að mínu mati er þörf á meira og betra eftirliti hjá einstaklingum með sögu um fíknivanda sem taka þessi lyf,“ segir Karl Reynir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert