Otti Rafn Sigmarsson, björgunarsveitarmaður hjá Þorbirni, segir að langflest hús í bænum séu í fínu standi. Mikilvægt sé fyrir fólk að átta sig á því og það heyri til undantekninga að hús séu mikið skemmd.
Otti hefur staðið vaktina frá því að bærinn var rýmdur og eins og gefur að skilja hafa aðilar úr sveitinni tekið sér minni hvíld en björgunarsveitarmenn annars staðar af landinu sem hlaupið hafa undir bagga.
„Tilfellið er það að langflest hús eru í mjög fínu lagi. Og ég vona það að þegar líður a vikuna, þá verði flest hús komin með hitaveitu og þau eru langflest þegar komin með rafmagn. Það eru vissulega hús í kringum þessa sprungu sem eru löskuð en við bíðum bara eftir því að fólk komi í bæinn og geri hann blómlegan aftur,“ segir Otti.
Þegar mbl.is náði tali af Otta var Þorbjörn í því verkefni að bjarga hljóðfærum úr tónlistarskólanum og spjaldtölvum úr skólanum. „Það eru nokkur hús sem eru mjög illa farin en þau eru ekki mörg. Þegar fólk fer inn í húsin sem eru hvað verst farin þá þurfum við meiri mannafla. Í þeim tilfellum erum við t.a.m. með rústabjörgunarfólk með okkur," segir Otti.
Hann segir að meðlimir Þorbjarnar telji 45 manns og þar af séu alla jafna 30-35 að störfum. Inni á milli fái menn þó hvíld. „Við í björgunarsveitinni ásamt slökkviliðinu. Við komum inn fyrstir á morgnana og kveikjum ljósin í bænum og við förum síðastir úr bænum á kvöldin og slökkvum á eftir okkur,“ segir Otti.
Hann segir þá tilfinningu góða. Að fá að hugsa um hag bæjarbúa. „Það hjálpar okkur að gera gagn. Það er einfaldara að vinna þetta verkefni því við vitum að við erum að gera gagn,“ segir Otti.
„Við höfum verið að gera ýmislegt, slá inn rafmagnið hjá fólki, ná í ketti og eitt og annað sem við höfum verið að gera þannig að fólkinu okkar, Grindvíkingum, líði betur. Það er mjög vel mannað hjá okkur því fólki líður vel að fá að taka þátt,“ segir Otti.
Spurður segir hann að fólki bjóðist sáluhjálp frá Slysavarnarfélaginu en einnig fái menn styrk hjá hvor öðrum.
„Við hópurinn höfum tekið samverustund, sem kalla mætti hálfgerða áfallahjálp og átt góðar stundir. En svo erum við líka í miðjum atburði og aðgerðarfasa. Við tökum reglulegt spjall um líðan manna. Við gerum okkur grein fyrir því að þegar þetta verkefni er búið þá ætlum við að búa hérna áfram um aldur og ævi. Jafnframt ætlum við að halda sveitinni gangandi og því þurfum því að passa okkur á því að klára okkur ekki,“ segir Otti.