Rúmlega 630 jarðskjálftar hafa mælst frá miðnætti á Reykjanesskaganum, þar af sjö yfir tveimur að stærð. Sá stærsti kom klukkan 01.17 og af stærð 2,7.
Jarðskjálftarnir hafa raðast eftir kvikuganginum en mesta virknin í nótt hefur legið suður af Hagafelli og norður fyrir Stóra-Skógfell.
Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir engar áberandi breytingar hafa komið fram á rauntíma GPS-mælingum í nótt. Heilt yfir sé staðan svipuð og hún var í gærkvöldi.
Veðurstofan fái síðar í dag ný gervihnattagögn sem gætu gefið skýrari mynd af landrisi og landsigi á svæðinu.