Skólastarf safnskóla hefst á miðvikudag

Jóhanna Lilja Birgisdóttir, yfirsálfræðingur á félagsþjónustu- og fræðslusviði Grindavíkurbæjar, ásamt …
Jóhanna Lilja Birgisdóttir, yfirsálfræðingur á félagsþjónustu- og fræðslusviði Grindavíkurbæjar, ásamt Ingibjörgu Lilju Ómarsdóttur, fagstjóra endurreisnar hjá almannavörnum. mbl.is/Arnþór

Gert er ráð fyrir að safnskólar taki til starfa frá og með næsta miðvikudegi fyrir grunnskólabörn úr Grindavík. Þá er verið að kortleggja húsnæði fyrir safnleikskóla með tilliti til núverandi staðsetningar leikskólabarna, starfsmanna og starfsmannaþarfar.

Þetta kom fram í máli Jóhönnu Lilju Birgisdóttir, yfirsálfræðings á félagsþjónustu- og fræðslusviði Grindavíkurbæjar, á upplýsingafundi almannavarna sem lauk fyrir skömmu.

Mæta hverju barni á eigin forsendum

Jóhanna sagði að megináherslan, þegar kemur að tryggja næstu skref í sambandi við skólagöngu barna úr Grindavík, væri lögð á að hverju barni verði mætt á eigin forsendum.

„Á þessum skrítnu tímum er ekki skólaskylda fyrir börn úr Grindavík. Þó ber okkur skylda til að veita börnunum tækifæri til að ganga í skóla og unnið er að því með hjálp nágrannsveitarfélaga,“ sagði Jóhanna á fundinum.

Hún sagði aðstæður barna mismunandi, sum þurfi að komast í skólann sem fyrst en önnur þurfi á því að halda að vera meira heima með fjölskyldunni og aðlagast nýjum aðstæðum. Hvatti hún foreldra til að eiga opið samtal við börnin sín um þeirra hugmyndir um skólagöngu næstu vikurnar.

Öllum börnum úr Grindavík stendur til boða að ganga í hverfisskóla síns búsetuhverfis. Foreldrar geta innritað börn sín í hverfisskólana og hafa þá beint samband við stjórnendur viðkomandi hverfisskóla.

Safnskólar verða í boði á mismunandi stöðum í Reykjavík frá og með næsta miðvikudegi en þar verður skipt í hópa eftir aldri og kennarar úr Grindavík verða með börnunum. Upplýsingar um hópana verða sendar foreldrum í gegnum Mentor.

Hópaskiptingin verður með þeim hætti að 1.-2. bekkur verður í skólahúsnæði við Hvassaleitisskóla, 3.-4. bekkur í skólahúsnæði í Tónabæ, 5.-8. bekkur í skólahúsnæði í Ármúla 30 og 9.-10. bekkur í skólahúsnæði í Laugalækjarskóla.

Jóhanna sagði skólahald verða með heldur óhefðbundnum hætti til að byrja með. Lögð verði áhersla á samveru, leik og vettvangsferðir samhliða þáttum sem styrki farsæld og vellíðan barnanna.

Lagði Jóhanna ríka áherslu á að skólahald standi börnum til boða en ekki sé skylda að mæta. Sagði hún mikilvægt að tryggja skólavist, rútínu, leik og samveru barna við jafnaldra sína sem allra fyrst en sagði jafnframt að ákvörðun um hvenær og hvernig börn frá Grindavík muni hefja nám að nýju verði að vera í samræmi við það sem er þeim fyrir bestu og í samráði við bæði þau og foreldra þeirra.

Safnleikskólar í undirbúningi

Þá kom fram í máli Jóhönnu að búið sé að kortleggja laust húsnæði fyrir safnleikskóla þar sem lagt er upp með að börn úr Grindavík komi saman með kennurum sem þau þekkja og jafnvel foreldrum í byrjun til að auka öryggi barnanna.

Sagði hún horft til þess að um sé að ræða ung börn á viðkvæmu þroskaskeiði og því mikilvægt að allar ákvarðanir sem verði teknar á næstu dögum verði vandaðar og í samræmi við það sem sé börnunum fyrir bestu og í samráði við bæði foreldra og starfsfólk leikskóla.

Sagði hún að enn sé verið að kortleggja staðsetningu leikskólabarna, starfsmanna og starfsmannaþörf og vænta megi frekari upplýsinga um framhaldið á næstu dögum.

Starfsfólk skólanna þurfi að ná áttum

Lagði Jóhanna í máli sínu áherslu á að starfsfólk leik- og grunnskóla þurfi að ná áttum og fá tíma til að vinna úr áfallinu áður en það snýr aftur til starfa með börnunum. Sumir séu tilbúnir en aðrir þurfi meiri tíma.

Hún sagði að rík áhersla væri lögð á aðgengi að handleiðslu fyrir starfsfólk skólanna.

Sérstakur stuðningur veittur

Þá tók hún fram að þeim börnum sem ekki eiga kost á að sækja viðveru í safnskóla eða velja að fara í sinni hverfisskóla verði veittur sérstakur stuðningur í samræmi við lög um farsæld barna.

Sagði hún skólayfirvöld Grindavíkurbæjar koma til með að setja sig í samband við foreldra og kynna þann stuðning sem þeim verði veittur.

Verið að setja upp námskeið fyrir foreldra

Að loknum fundinum var Jóhanna spurð um áfallahjálp fyrir börn. Sagði hún foreldra hvatta til að koma í þjónustumiðstöðina í gamla Tollhúsinu við Tryggvagötu í Reykjavík þar sem veittur sé sálrænn stuðningur.

Sagði hún að verið væri að setja upp námskeið þar sem foreldrar geta skráð sig og fengið þennan stuðning til handa sér og börnum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert