Landris mælist enn mikið í Svartsengi samkvæmt nýjum gervitunglamyndum og öðrum gögnum sem Veðurstofan hefur farið yfir. Er það talsvert hraðara en áður en kvikugangurinn myndaðist 10. nóvember.
Þessi skýru merki um landrist í Svartsengi breyta hins vegar ekki líkunum á því að það gjósi á kvikganginum frekar en þeim stöðum þar sem landrisið er mest. Þetta er meðal þess sem Veðurstofan greinir frá í daglegri uppfærslu á heimasíðu sinni vegna ástandsins við Grindavík.
Segir þar að meðan ekki mælist mikil skjálftavirkni á svæðinu í Svartsengi séu ekki taldar miklar líkur á að gos komi upp þar, heldur miklu frekar yfir kvikuganginum. Á kvikan auðveldara með að komast upp á yfirborðið þar, en jarðskorpan yfir kvikuganginum er mun veikari en yfir landrisinu, auk þess sem grynnra er niður á kvikuna.
Frá miðnætti í dag hafa um 700 skjálftar mælst nærri kvikuganginum en sá stærsti var 2,7 að stærð og átti upptök sín nærri Hagafelli. Frá því á föstudag hafa 1.500-1.800 skjálftar mælst á dag við kvikuganginn og var sá stærsti 3,0 að stærð á föstudagsmorguninn.
Í morgun fór fram samráðsfundur sérfræðinga Veðurstofunnar, Háskóla Íslands og almannavarna. Þar var farið yfir nýjar gervitunglamyndir af Svartsengi og kvikuganginum. Má þar sjá breytingar sem hafa orðið frá 18. til 19. nóvember, en þær sýna sem fyrr segir skýr merki um landris á þeim slóðum.
Líkön sem reiknuð hafa verið út frá gervitunglamyndunum sýna að landrisið í Svartsengi er talsvert hraðara en áður en kvikugangurinn myndaðist 10. nóvember. Segir Veðurstofan að almennt þegar kvikugangur myndast sígi land í miðju gangsins eins og sjáist í Grindavík, en rís hvorum megin fyrir sig við hann. Merki um landris í Svartsengi vegna kvikusöfnunar hefur sést í nokkurn tíma, en svo blandast inn í þær mælingar áhrif frá myndun kvikugangsins.
Þá segir jafnframt að það að áfram sjáist landris við Þorbjörn í kjölfar myndunar kvikugangsins sýni „að við erum enn í miðri atburðarrás“. Segir Veðurstofan að áfram þurfi að gera ráð fyrir að þessi atburðarrás geti breyst með litlum fyrirvara.