„Þetta verður högg fyrir ríkissjóð. Þannig er það. Þetta er bara stórkostlegt tjón.“ Þetta segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra við spurningum um viðbrögð ríkisstjórnarinnar við ástandinu í Grindavík.
Guðrún stóð fyrir svörum við þjónustumiðstöð almannavarna vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga í Tollhúsinu fyrr í dag. Staðið var fyrir heimsókn í miðstöðina sem meðal annars fjölmiðlar, ríkislögreglustjóri, fulltrúar viðbragðsaðila og ýmsir ráðamenn sóttu.
Dómsmálaráðherra segir að atburðir síðustu daga muni óhjákvæmilega hafa áhrif á ríkissjóð.
„Við vorum komin það langt í fjárlagavinnunni áður en að þessu kom að það sést ekki svo mikið í þeirri vinnu að það sé komið. En það er gert ráð fyrir því.“
Hún segir að það sé alveg ljóst að frárennsliskerfið í Grindavík sé líklega ónýtt. „Þannig að íbúar geta ekki snúið til baka eins hratt og einhverjir munu vilja. Heldur ekki eins og við höfðum séð fyrir okkur fyrir nokkrum dögum.“
Hún segist enn fremur hafa áhyggjur af því að nákvæmt umfang skemmdanna liggi enn ekki ljóst fyrir.
„Það eru bara tíu dagar liðnir frá þessum skelfilegu atburðum. Við erum núna í bráðaviðbragði og það mun leiða til þess að við þurfum að horfa til lengri tíma,“ segir Guðrún.
Spurð hverjar áætlanir ríkisstjórnarinnar séu til lengri tíma litið nefnir hún að frumvarp sé í þinginu núna sem kveður á um að laun Grindvíkinga verði tryggð til 1. febrúar. Húsnæðismál séu þó einnig í fyrirrúmi.
„Nú erum við á fullu að skoða húsnæðismál því það er mjög brýnt. Grindvíkingar eru flestir í bráðabirgðahúsnæði. Sumir eru enn í Airbnb-íbúðum eða á hótelherbergjum, það getur ekki gengið. Við sjáum núna að þetta verði einhverjir mánuðir og forsendur gjörbreyttar hjá fólki. Við verðum að fá niðurstöðu í það hratt og vel.“
Guðrún segir engar endanlegar tillögur komnar um hvað standi til að gera varðandi húsnæðismál Grindvíkinga. Innviðaráðherra stýri nú húsnæðishópi, svokölluðum spretthópi, sem sé að funda um mögulegar aðgerðir.
Hún tekur fram að mikilvægt sé að hlusta á Grindvíkinga sjálfa. Hvað það sé sem þeir vilji gera og hvar þeir vilji vera. Hún nefnir að minnsta kosti 400 Grindvíkingar séu með aðsetur í Reykjanesbæ.
„Við þurfum að vita sirka hvað við verðum að finna mikið húsnæði á þeim slóðum, höfuðborgarsvæðinu og jafnvel fyrir austan fjall. En við getum gert það.“