Íslandsdeild Amnesty International stóð fyrir viðburði í Kringlunni í gær til að vekja athygli á árlegri og alþjóðlegri herferð Amnesty International, Þitt nafn bjargar lífi, en herferðin í ár er helguð tíu málum sem flest tengjast frelsisskerðingu með einum eða öðrum hætti, segir í tilkynningu frá Íslandsdeild Amnesty International.
Söngkonan Elín Ey steig fram á svið ásamt hópi ungs listafólks og flutti eigin útgáfu af laginu „Hvaða frelsi?“ eftir Hjálma.
Elín flutti lagið í sérsmíðuðu fangelsi og svo mun listahópur ungs fólks frá Menntaskólanum við Hamrahlíð standa fyrir gjörningi þar sem fangelsið er tekið í sundur með táknrænum hætti, segir enn fremur í tilkynningu.
Á staðnum var fólk á vegum Íslandsdeildar Amnesty International sem safnaði undirskriftum fyrir málin tíu í herferðinni.
Í tilkynningu segir að málin í ár séu fjölbreytt og frá öllum heimshornum. Víða er tjáningarfrelsið skert og fólk sætir fangelsisvistar fyrir það eitt að tjá sig í óþökk stjórnvalda. Sumir eru myrtir eða í felum vegna lífslátshótana fyrir það eitt að krefjast umbóta.
Hægt er að lesa nánar um málin tíu á vefsíðu Íslandsdeildar Amnesty International.