Tillfelli fá en búist við að þeim fjölgi

Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir segir tilfellum fara fjölgandi, en að þau …
Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir segir tilfellum fara fjölgandi, en að þau séu fá enn sem komið er. mbl.is/Hallur Már

Fjöldi Covid-tilfella hefur verið stöðugur undanfarið, en sjá má að tilfellum RS-veirunnar og inflúensutilfellum fer fjölgandi, þó að enn sem komið er séu þau fá, segir Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir. 

Samkvæmt tilkynningu frá embætti sóttvarnarlæknis greindust í síðustu viku 12 manns með staðfesta inflúensu, 32 voru lagðir inn vegna Covid-19 og þrjú börn voru lögð inn vegna RS-veirunnar, öll undir fimm ára aldri. 

Fylgjast með nýju bóluefni gegn RS-veirunni

Guðrún segir RS-veiruna iðulega lýsa sér eins og venjulegt kvef, en að hún leggist illa á ung börn, eins árs og yngri og þá sérstaklega á börn með undirliggjandi sjúkdóma.

Engin lyf eru við veirunni, en Guðrún segir að erlendis sé byrjað að notast við nýtt bóluefni gegn veirunni og að verið sé að fylgjast með þróun mála hérlendis. 

Varðandi þróun smita í samfélaginu gerir Guðrún ráð fyrir því að tilfellum muni fjölga:

„Við erum svona að sigla inn í þetta tímabil og það er viðbúið að RS- og inflúensutilfellum muni fara fjölgandi,“ en Guðrún segir RS-veiruna dúkka upp á ári hverju og að á seinasta ári hafi verið óvenju mörg tilfelli. „En við vitum að vísu ekki hvernig þetta verður í ár,“ segir hún.

Guðrún hvetur fólk til að sinna sóttvörnum.
Guðrún hvetur fólk til að sinna sóttvörnum. mbl.is/Árni Sæberg

Fjölmörg afbrigði kórónuveirunnar enn í gangi

Varðandi Covid-tilfelli segir Guðrún: „Það er svolítið óljósara með Covid hvort það komi aukning, en þetta er búið að haldast nokkuð stöðugt síðustu vikurnar, allavega samkvæmt þeim tilfellum sem við vitum af.“

Hún segir að fjölmörg afbrigði séu í gangi, en að þetta séu hér um bil sömu afbrigði og hafa verið á sveimi síðustu ár, ómíkron-afbrigðið þar á meðal.

Hvetur fólk til að huga að bólusetningum

„Þátttakan mætti vera betri,“ segir Guðrún spurð út í gang bólusetningar gegn inflúensu um þessar mundir. 

„Við erum svona á svipuðum stað og fyrir Covid,“ segir hún og að þátttaka í inflúensu bólusetningu hafi aukist á tímanum sem kenndur er við veiruna. 

„Ég vil hvetja fólk að huga að bólusetningum og sinna sóttvörnum á þessu flensutímabili,“ segir hún að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert