Þriðja barnaþing umboðsmanns barna fór fram í Hörpu síðastliðinn föstudag. Forseti Íslands setti þingið, en um 140 börn á aldrinum 11 til 15 ára víðs vegar af landinu sóttu það.
Fyrir hádegi fóru fram umræður á vinnuborðum. Eftir hádegi mættu fullorðnir boðsgestir, meðal annarra þingmenn og ráðherrar, til að taka þátt í áframhaldandi umræðu um þau umfjöllunarefni sem börnin höfðu valið, segir í tilkynningu.
Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku- og loftlagsráðherra, Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra, sátu fyrir svörum í lok barnaþingsins. Þá kom forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir undir lok þingsins og ávarpaði barnaþingmennina.
Börnin sögðu brýnt að stjórnvöld hlustuðu meira á börn og að réttindi allra barna væru tryggð. Þá lögðu þau til að sálfræðiþjónusta væri til staðar í öllum skólum, lækkun kosningaaldurs niður í 16 ár, skólakerfi sem hentar öllum, bæði þeim sem vilja fara hratt eða hægt í gegnum námið, að bið eftir greiningum væri stytt, betri þjónusta væri fyrir flóttafólk, ókeypis í strætó fyrir öll börn undir 18 ára aldri og að öll kyn fái sömu réttindi í íþróttum, segir enn fremur í tilkynningunni.
Ungir leikarar sóttu þingið og fluttu tvö atriði úr leikritinu Fíusól sem verður frumsýnt í Borgarleikhúsinu í byrjun desember.
Þá lauk barnaþinginu með flutningi frá Herra Hnetusmjöri, en barnaþingmenn völdu hann sérstaklega til að koma þar fram.