Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptarráðherra, útilokar ekki að grípa til hressilegra aðgerða sýni fjármálastofnanir ekki fulla samfélagslega ábyrgð í málefnum Grindvíkinga, en málefni Grindvíkinga voru í brennidepli í óundirbúnum fyrirspurnartíma á fundi Alþingis í dag.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, og Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, beindu fyrirspurnum sínum til Lilju og kröfðu hana um aðgerðir ríkisstjórnarinnar þegar kemur að kröfum fjármálastofnana til Grindvíkinga.
Í fyrirspurn sinni til Lilju sagði Þórhildur:
„Hæstvirtur ráðherra hefur lýst því yfir, með leyfi forseta, að fjármálastofnanir verði að sýna samfélagslega ábyrgð á svona miklum óvissutímum og skora á bankana að gera betur. Þá sagðist hún einnig, með leyfi forseta, að ætla að taka á þessu máli og því vil ég spyrja hæstvirtan ráðherra: Hvernig ætlar ráðherrann að taka á þessu? Ætlar hann að grípa til einhverra aðgerða eða ætlar hann að láta sér nægja að biðla til samfélagslegrar ábyrgðarkenndar bankastofnana og vona það besta?“
Lilja svaraði að Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra væri í viðræðum við viðeigandi stofnanir og hafði trú á því að niðurstaða í þessum málum væri á leiðinni, hún lét það einnig í ljós að henni þótti skilaboðin sem Grindvíkingar fengu í síðustu viku „býsna köld“ að hennar mat. Þá sagði hún:
„Hæstvirtur þingmaður spyr hvernig ráðherrann ætli að beita sér. Stjórnvöld eru núna í samtali við fjármálastofnanir og ég geri fastlega ráð fyrir því að við munum sjá aðgerðir í þessari viku sem munu benda til þess og vera þess háttar að fjármálastofnanir munu sýna fulla samfélagslega ábyrgð. Nú er það svo að fjármála- og efnahagsráðherra fer með þessi mál í ríkisstjórninni. Hins vegar fer ég með neytendamálin og sjáum við ekki frekari aðgerðir núna á allra næstu dögum verðum við auðvitað að grípa til þeirra ráða sem við höfum hér. Ég útiloka ekki að það verði bara býsna hressilegt.“
Enn fremur sagði Lilja að nú væri mikilvægast að tryggja Grindvíkingum þrennt. Fyrir hið fyrsta er að tryggja þeim svokallaða afkomutryggingu og búið er að dreifa frumvarpi þess efnis. Í öðru lagi sagði hún að tryggja þyrfti húsnæði handa Grindvíkingum til skamms og lengri tíma litið. Í þriðja lagi sagði hún að koma þyrfti upp viðbótarstuðningi við „algerlega óhefðbundin“ útgjöld sem Grindvíkingar þurfa að fara í þessa dagana.
Oddný krafði þá Lilju um nánari svör og sagði í fyrirspurn sinni:
„Ef ég skildi hæstvirtan ráðherra rétt hér fyrr í þessum fyrirspurnatíma, þá er hún sammála að bankarnir eða lánastofnanir eiga að bera kostnaðinn af því að fella niður vexti og verðbætur á lánum Grindvíkinga og meðan þau eru fryst. En til hvaða aðgerða er hægt að grípa? Getur hæstvirtur ráðherra eða hæstvirt ríkisstjórn gert annað í því en að biðja bankanna og lífeyrissjóði um að sýna samfélagslega ábyrgð? Til hvaða hressilegu aðgerða er hæstvirtur ráðherra tilbúinn til að grípa?“
Enn fremur spurði Oddný í seinni fyrirspurn hvort Lilja væri þess viljug að beita sér fyrir því að þrýsta á þá banka í eigu ríkisins til þess að þeir myndu grípa til fordæmandi aðgerða.
Lilja svaraði fyrri fyrirspurn Oddnýjar og ítrekaði svör sín við fyrirspurn Þórhildar, að fjármála- og efnahagsráðherra stæði í viðræðum við viðeigandi aðila og taldi að allar líkur séu á því að niðurstöður fáist úr þeim samræðum.
Lilja svaraði seinni fyrirspurn Oddnýjar og sagðist ætla að beita sér fyrir þeim bönkum sem væru í eigu ríkisins:
„Já, ég mun, ég er að beita mér og mun halda áfram að beita mér vegna þess að, eins og ég sagði hér áðan að það er gríðarlega mikilvægt að það sé þrennt sem sé tryggt núna. Það er að afkomutrygging. Það er húsnæði, skjól og viðbótar stuðningur við Grindvíkinga á þessum tíma.“