„Viljum hafa miklu meira aðgengi fjölmiðla“

Björgunarsveitarfólk á vaktinni við Grindavík.
Björgunarsveitarfólk á vaktinni við Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, segist skynja óánægju fjölmiðla á afar takmörkuðu aðgengi þeirra til Grindavíkur og segir hann helstu ástæðuna fyrir því að mannskap skorti til að fylgja fjölmiðlunum inn í bæinn.

Spurður hvort hann finni fyrir kurr hjá fjölmiðlafólki á skertu aðgengi inn í Grindavík segir Víðir:

„Já, en þetta er ekki eins og við viljum hafa það og vil viljum hafa miklu meira aðgengi fjölmiðla. Það hefur alltaf verið okkar lína og hún verður þannig þegar það fer að létta á þessu. Þetta er hálfgerð neyðarráðstöfun eins og sakir standa. Megnið af fólkinu sem er að flytja íbúana inn í bæinn eru sjálfboðaliðar úr björgunarsveitunum og okkur vantar meiri mannskap,“ sagði Víðir við mbl.is eftir upplýsingafund almannavarna í Skógarhlíð í dag.

Engin hagur verkefnisins að halda fjölmiðlum frá

Erlendum fjölmiðlamönnum, sem eru að fjalla um jarðhræringarnar á Reykjanesskaga, hefur fjölgað jafnt þétt og í gær var opnuð upplýsingamiðstöð fyrir fjölmiðla sem staðsett er í Hafnarfirði.

„Innlenda pressan hefur verið í forgangi hjá okkur og að þjónusta hana. Íbúar Grindavíkur fylgjast með íslensku fjölmiðlunum en koma erlendra fjölmiðlafólks er verkefni sem þarf líka að skoða. Aðaláhersla hjá okkur er að tryggja það að íbúar Grindavíkur fái réttar upplýsingar. Það er engin hagur verkefnisins að halda fjölmiðlum frá,“ segir Víðir.

Víðir Reynisson segist skynja óánægju fjölmiðla að skertu aðgengi inn …
Víðir Reynisson segist skynja óánægju fjölmiðla að skertu aðgengi inn í Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann segir það vera í skoðun hvort hægt sé að gera þetta með einhverjum öðrum hætti og að vonandi verði hægt að setja saman hóp í tveimur eða þremur bílum sem geta farið inn í bæinn í fylgd björgunarsveitarfólks.

„Það skiptir máli að allur almenningur átti sig á því hversu alvarleg staðan er. Það gerum við fyrst og fremst með miðlun í gegnum fjölmiðlana,“ segir Víðir.

Ennþá fólk sem hefur ekki farið í hús sín

Verðmætabjörgun íbúa og fyrirtækja í Grindavík hefur verið í gangi síðustu daga og segir Víðir að betur gangi núna að hleypa fólki inn í húsin en betur má ef duga skal.

„Við höfum náð aðeins betri tökum á þessu en þegar við fórum yfir gærdaginn þá var staðan ennþá þannig að það eru fjölskyldur og einstaklingar sem ekki höfðu náð að fara heim og það þykir okkur leiðinlegt.

Það eru líka einhverjir sem búnir eru að fara heim en þurfa að nálgast mikilvæga hluti. Við heyrðum til að mynda af fólki sem vantar að komast heim til að sækja hjálpartæki fyrir fötluð börn sín og við erum að reyna að leysa úr því. Við vitum líka að það er ennþá eitthvað af dýrum sem eru týnd og fólk hefur að fá að fara inn í bæinn til að leita af þeim,“ segir Víðir.

Nýtt skráningarkerfi fyrir íbúa Grindavíkur sem þurfa að komast til síns heima var tekið upp á island.is í gær og segir Víðir að það kerfi lofi góðu. Hann segir að tæknifólkið sem er að vinna með island.is sé að leita leiða til að bæta kerfið enn frekar eins og að á því verði leitarmöguleikar sem geti hjálpað við að forgangsraða.

Þetta landris sem á sér stað við Svartsengi. Breytir það einhverju varðandi gerð varnargarðana?

„Landrisið í Svartsengi var ástæðan fyrir því að við fórum í þessa aðgerð og þetta segir okkur að þrátt fyrir að þessi atburðarás hafi farið í gang sem veldur þessum kvikugangi þá höfum við ekkert slakað á að halda áfram með varnargarðinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert