Yfir 100 manns mæta á degi hverjum

Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir.
Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Yfir eitt hundrað manns hafa á hverjum degi heimsótt þjónustumiðstöð almannavarna vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga síðan hún opnaði í síðustu viku. 

Þetta segir Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir, fagstjóri hjá almannavörnum og stjórnandi þjónustumiðstöðvarinnar, sem sýndi blaðamanni og ljósmyndara miðstöðina í morgun. 

Símaverið í þjónustumiðstöðinni.
Símaverið í þjónustumiðstöðinni. mbl.is/Árni Sæberg

Símaver vegna húsnæðisþarfar Grindvíkinga opnar þar í dag. Þjónustan hefur verið í boði undanfarna daga en ekki á þessum stað. Á skrifstofunni eru sjö borð fyrir þjónustufulltrúa, sem m.a. geta aðstoðað þá Grindvíkinga sem þurfa á húsnæði að halda.

„Við erum að formgera starfsemina,” segir Ingibjörg Lilja. 

Leikherbergi fyrir börnin.
Leikherbergi fyrir börnin. mbl.is/Árni Sæberg

Þjónustumiðstöðin, sem er á tveimur hæðum í Tollhúsinu við Tryggvagötu, opnaði síðastliðinn miðvikudag. Hún er opin á virkum dögum frá klukkan 10 til 18 og felast verkefni hennar í stuðningi við íbúa Grindavíkurbæjar og aðra sem hafa á einhvern hátt orðið fyrir áhrifum vegna jarðhræringanna.

Sálrænn stuðningur er í boði.
Sálrænn stuðningur er í boði. mbl.is/Árni Sæberg

Á þriðju hæðinni er m.a. að finna opið svæði fyrir almenning, leiksvæði fyrir börn, herbergi fyrir sálfræðiþjónustu og kaffistofu. Einnig er þar pláss fyrir Náttúruhamfaratryggingu Íslands, viðtalsherbergi fyrir Vinnumálastofnun og sérstök álma fyrir stjórnsýslu Grindavíkurbæjar þar sem félagsþjónustu- og fræðslusvið bæjarins er staðsett fyrir á annan tug starfsmanna.

„Hugsunin er að vera með sem mesta þjónustu á einum stað,” segir Ingibjörg Lilja.

Pláss fyrir fyrirtæki

Á næstu hæð fyrir ofan eru viðbragðsaðilar að koma sér fyrir, þar á meðal starfsmenn almannavarna og Rauða krossins. Ásamt símaverinu er á sömu hæð m.a. meira pláss fyrir Vinnumálastofnun og aðstaða fyrir 11 til 12 fyrirtæki úr Grindavík en ekkert þeirra er komið þangað inn.

Jafnframt er þar stórt fundarherbergi og aðstaða fyrir félagsstarf Grindvíkinga, þar á meðal UMFG, kirkjuna og félagsmiðstöðina Þrumuna, ásamt bókasafni.

Þjónustumiðstöðin er í Tollhúsinu við Tryggvagötu.
Þjónustumiðstöðin er í Tollhúsinu við Tryggvagötu. mbl.is/Árni Sæberg

„Í þessari viku verður heilmikil starfsemi komin í gang,” segir Ingibjörg Lilja, spurð hvenær búið verður að fylla báðar hæðirnar. Fimmta hæð hússins er tóm og mögulega verður hægt að nýta hana síðar, bætir hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert