„Absúrd“ að vera krafinn um þegar greidd laun

Samsett mynd/mbl.is/Árni/Hólmfríður

Njáll Gunnlaugsson, fyrrverandi bílablaðamaður á Fréttablaðinu, hefur verið krafinn af þrotabúi Torgs um endurgreiðslu ritlauna sinna fyrir febrúarmánuð eins og fleiri í hans stöðu.

Hann er einn af þeim svokölluðu gerviverktökum sem störfuðu hjá Torgi, útgáfufélagi blaðsins áður en það lagði upp laupana í apríl á þessu ári.

Furðar sig á kröfu þrotabúsins

Njáll furðar sig mjög á kröfu þrotabúsins í samtali við mbl.is.

„Finnst þér þetta ekki spes? Ég náttúrulega rukka Fréttablaðið um þessa febrúargreiðslu talsvert fyrir gjaldþrotið og þeir sjá á mínum reikningi að þetta eru laun fyrir Bílablaðið,“ segir Njáll.

Verkefni hans hjá Torgi var að sjá um Bílablað Fréttablaðsins einu sinni í viku og um stórt blað í hverjum mánuði. Þannig var hann reglulega á ritstjórnarskrifstofum Torgs.

„Þetta er í raun og veru bara gerviverktaka. Þetta er það sem mér var boðið þegar ég byrja þarna 2019 og það var ekkert annað í boði af þeirra hálfu hjá Torgi.

Ég endursamdi 2021 og þá kom heldur ekkert annað til greina af þeirra hálfu en að ég héldi áfram sem verktaki. Ég hefði alltaf kosið að vera launþegi og hef alltaf verið það þegar ég get,“ segir Njáll sem hefur starfað sem blaðamaður síðan fyrir aldamót.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Njáli finnst mjög absúrd að vera krafinn um laun sem hann hefur þegar fengið greidd þegar hann á enn inni laun fyrir mánuðinn þar á eftir.

„Mér datt ekki einu sinni í hug að þrotabúið myndi pæla í því að rukka fólk um laun aftur í tímann. Þrotabúið hlýtur að vera komið langt út fyrir sitt hlutverk að krefja fólk um eitthvað sem skiptastjóri veit vel að eru laun.

Ég rukka þetta reyndar í gegnum mitt fyrirtæki því þar ég get borgað sjálfum mér laun og fengið mín lífeyrissjóðsréttindi og allt það.

Eflaust er þetta eitthvað prinsipp-mál fyrir þrotabúinu og þá segi ég á móti að það er prinsipp-mál að maður borgar ekki launin sín til baka.“

„Ég hugsa bara um þá sem eru í svipaðri stöðu

Njáll fékk að sögn ritlaun sín greidd sama dag og Torg varð lýst gjaldþrota.

„Þetta er hálf milljón sem eru ekki miklir peningar í sjálfu sér og ekki há laun. Þetta er samt það há upphæð að þetta er ígildi mánaðarlauna hjá mörgum.“

Njáll hefur verið í Blaðamannafélaginu frá árinu 1999. Hann segist alltaf hafa greitt í félagið enda alltaf litið á sig sem launþega þó einhverjir vinnuveitendur hans hafi gert honum að starfa sem verktaki.

„Það er mjög súrt í broti að það komi í bakið á manni,“ segir hann en Blaðamannafélagið hefur mál hans gagnvart Torgi til skoðunar.

„Ég hugsa bara um þá sem eru í svipaðri stöðu og geta orðið í framtíðinni, félagsins vegna og fyrir þá sem eru í félaginu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka