„Fólk virðist ekki átta sig á því að þetta er stuldur,“ segir Baldur Ólafsson, markaðsstjóri Bónuss. Fyrirtækið glímir ásamt fleiri verslunum við það vandamál að algengt er að fólk taki innkaupakerrur ófrjálsri hendi og skilji þær eftir á víðavangi.
Fyrirtækið greip til þess ráðs fyrir skemmstu að hengja upp skilaboð í verslun sinni í Hólahverfi til að minna fólk á að skila kerrum og jafnframt áminningu að taka þær ekki. Baldur segir að starfsfólk fyrirtækisins fari um hvippinn og hvappinn að sækja kerrur fyrirtækisins.
„Þetta er algengt vandamál og miklu algengara en fólk heldur,“ segir Baldur.
Hann segir kerrurnar frekar teknar á vissum svæðum þar sem fyrirtækið rekur verslanir. Nefnir hann í því samhengi Breiðholt, Njarðvík og Skipholt.
„Oft er þetta þannig að fólk nennir ekki að bera vörurnar. Fer svo með kerrurnar heim og skilur þær eftir þar. Jafnvel bara beint fyrir utan heimilið,“ segir Baldur.
Hann segir einnig dæmi þess að kerrurnar hafi fundist inni á lager hjá fyrirtækjum. Í þeim tilfellum eru þær nýttar til að flytja vörur á milli svæða.
„Þegar við komumst á snoðir um þetta þá tökum við þær bara til baka,“ segir Baldur. Spurður segir hann að skýringar fyrirtækjanna séu alla jafna litlar og menn skili kerrunum yfirleitt með skottið á milli lappanna.
„Við bendum þeim yfirleitt bara á söluaðila sem eru að selja svona kerrur,“ segir Baldur.
Hann segir að um töluverða fjármuni sé að ræða. Hver kerra kosti 20-30 þúsund krónur enda séu þær gerðar til að þola harðgera veðráttu og notkun í heild um milljón viðskiptavina á mánuði.
Hann segir að fyrirtækinu reglulega berast ábendingar um innkaupakerrur sem eru á stöðum hingað og þangað í borg og sveit.
Í framhaldinu fara starfsmenna og sækja kerrurnar. Að sögn Baldurs eru kerrurnar gjarnan á hinum ólíklegustu stöðum. Úti í á, hengdar uppi í ljósastaur og á víðavangi fjarri byggð svo dæmi séu nefnd.