Eysteinn Þór Kristinsson, skólastjóri grunnskóla Grindavíkur, segir mikla tilhlökkun ríkja fyrir morgundeginum.
Þá tekur skólinn til starfa að nýju, en skólahald var lagt niður þegar rýma þurfti Grindavíkurbæ föstudaginn 10. nóvember.
Að sögn Eysteins verður skóladagurinn á morgun með öðruvísi sniði. Þá verður opið hús fyrir foreldra og nemendur þar sem þeim gefst kostur á að hitta kennara, stjórnendur og stuðningsfulltrúa skólans.
„Síðan hefjum við bara leik á fimmtudaginn,“ segir Eysteinn glaður í bragði. Hann segir börnin hlakka mikið til þess að hitta hvert annað aftur.
„Ætli það fari ekki mikill tími á fimmtudaginn í það að eiga góðar samverustundir. Krakkarnir eru ekki búnir að hittast lengi þannig ég á ekki von á því að bókin verði opnuð alveg strax á fimmtudag.“
Eysteinn segir að skólahald muni koma til með að fara fram á fjórum starfsstöðvum í Reykjavík. Þá munu fyrsti og annar bekkur vera í Hvassaleitisskóla og þriðji og fjórði bekkur í Víkingsheimilinu í Safamýri.
Nemendur í fimmta til áttunda bekk verða til húsa í Ármúla 30 sem Reykjavíkurborg hefur nýtt til skólahalds undanfarin misseri og loks verður níundi og tíundi bekkur í Laugalækjarskóla.
Spurður hvernig gengið hafi að finna lausnir við skólahaldi hrósar Eysteinn fulltrúum Reykjavíkurborgar í hástert.
„Fræðslusvið Reykjavíkurborgar og sérstaklega Helgi Grímsson hafa verið okkur algjörlega frábær,“ segir Eysteinn og vísar þar til sviðsstjóra skóla-og frístundasviðs borgarinnar.
Þrátt fyrir að enn hafi ekki verið fundinn flötur á öllu því sem viðkemur skólahaldi í Grindavík segir Eysteinn það jákvætt að börnin geti sótt skóla að nýju.
„Það er bara rosalega gott að geta komið þessu í gang. Þó ýmis mál séu enn óleyst verðum við einhvers staðar að byrja.
Við leitum leiða til þess að koma frístundastarfi á laggirnar hjá okkur og svo erum við með nemendur bæði í Reykjanesbæ og á Selfossi sem myndu jafnvel vilja koma og þá þurfum við að skoða samgöngur þar á milli.“