Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt konu í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir fjárdrátt í starfi.
Þá var konan dæmd til að greiða verktakafyrirtæki, sem hún starfaði hjá, 4,3 milljónir króna sem og 2,3 milljónir kr. í málsvarnalaun.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ákærði konuna í janúar á þessu ári fyrir fyrir fjárdrátt með því að hafa á tímabilinu 17. maí 2019 til 3. júní 2020, þegar hún var starfsmaður fyrirtækisins dregið sér samtals 4.675.258 krónur og nýtt í eigin þágu.
Fjárdrátturinn fór þannig fram að konan millifærði fjárhæðina í 52 greiðslum af reikningi fyrirtækisins og inn á eigin reikning.
Lögmaður fyrirtækisins gerði jafnframt kröfu um að konan yrði dæmd til að ofangreinda upphæð með vöxtum.
Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll 18. október en var birtur í gær, að konan hafi viðurkennt að hafa millifært umrædda fjármuni í umræddum tilvikum á eigin reikning en neitaði sök.
Þá segir að í fjórum tilvikum hafi alltaf verið um það að ræða að konan kvaðst hafa greitt útgjöld félagsins, líklega með reiðufé, og hafa síðan fengið endurgreitt. Reikningar liggja fyrir að baki þessum greiðslum sem virðast hafa verið samþykktir.
Í þremur tilvikum kemur fram á reikningunum að greitt hafi verið til manns að nafni C. Yfirmaður konunnar kannaðist við það að maður sem gæti verið þessi aðili hefði stundum unnið verk fyrir félagið.
„Engin tilraun var gerð til þess að taka skýrslu af umræddum C við rannsókn málsins hjá lögreglu og hann gaf ekki heldur skýrslu fyrir dómi. Hefur því hvorki lögregla né ákæruvaldið, að mati dómsins, gert reka að því að sanna að umræddir reikningar hafi ekki átt við rök að styðjast, með því t.d. að kalla til vitni sem um það gátu borið. Er því rannsókn málsins verulega ábótavant hvað þetta varðar. Af þessum sökum verður ekki talið að ákæruvaldinu hafi tekist sönnun um að ákærða hafi gerst sek um brot þau sem henni eru gefin að sök í umræddum tilvikum og er hún því sýknuð af þeim,“ segir í niðurstöðu dómsins.
Hún var sýknuð af ákæru um sex millifærslur af 52.
Dómstóllinn segir að brot konunnar hafi varðað verulegar fjárhæðir og staðið yfir um allangt skeið. Samkvæmt sakarvottorði hafði hún ekki áður sætt refsingu. Þótti refsing hennar því hæfilega ákveðin átta mánaða skilorðsbundið fangelsi.