Enginn vegur á Íslandi uppfyllir skilyrði fyrir hámarkshraða hærri en 90 km/klst. að því er kemur fram í svari innviðaráðherra á Alþingi við fyrirspurn Vilhjálms Árnasonar, alþingismanns. Reykjanesbrautin milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur sé sá vegur sem komist næst því að uppfylla skilyrðin en þó vanti nokkuð upp á.
Vilhjálmur spurði hvort komið hafi til skoðunar að nýta heimild í umferðarlögum um aukinn hámarkshraða á ákveðnum vegköflum og ef svo sé hvers vegna hafi verið ákveðið að nýta ekki þá heimild.
Í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar, innviðaráðherra segir að í umferðarlögum sé ákvæði um að ákveða megi hærri hraðamörk á vegum, þó ekki hærri en 110 km á klst. ef akstursstefnur séu aðgreindar og aðstæður að öðru leyti leyfa, enda mæli veigamikil sjónarmið um umferðaröryggi ekki gegn því.
Við ákvörðun á hámarkshraða og hvort verjanlegt sé að hækka hann umfram þær meginreglur sem kveðið er á um í umferðarlögum sé litið til ýmissa þátta. Í fyrsta lagi hvort vegur og hönnun hans uppfylli nauðsynleg skilyrði til að hægt sé að hækka hámarkshraðann. Í öðru lagi hvort næsta umhverfi vegarins, þ.e. öryggissvæði, uppfylli sambærileg skilyrði. Í þriðja lagi hvort miðjusvæði milli akbrauta uppfylli skilyrðin. Í fjórða lagi þurfi að huga að óvörðum vegfarendum.
Eins og staðan sé í dag uppfylli enginn vegur á Íslandi skilyrði fyrir hámarkshraða hærri en 90 km/klst. Auk nægilegs hönnunarhraða séu skilyrði sem þurfi að vera uppfyllt til að hækka megi leyfilegan hámarkshraða á vegi eftirfarandi:
Reykjanesbrautin milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur sé sá vegur sem komist næst því að uppfylla skilyrðin en þó vanti nokkuð upp á. Þannig uppfylli öryggissvæði meðfram veginum ekki kröfur fyrir hærri hámarkshraða en 90 km/klst. og skipti þá ekki máli hvort um sé að ræða 100 km/klst. eða 110 km/klst. Í fyrra tilvikinu þyrfti að tryggja að lágmarki 15 metra breitt svæði án hvers kyns hindrana norðan og sunnan brautarinnar, en að lágmarki 18 metra breitt svæði í síðara tilvikinu, til að draga úr hættu á alvarlegum meiðslum við útafakstur.
Þá uppfylli miðjusvæðið milli akbrauta, svokallaður miðdeilir, ekki skilyrðin. Í miðjusvæðinu hafi verið unnið að uppsetningu vegriðs til að koma í veg fyrir að ökutæki geti komist yfir á þann helming vegarins sem ekið er á í gagnstæða átt. Nú séu vegrið einungis öðrum megin, að jafnaði þeim megin sem vegkantur liggur hærra í landi.
Auk þess sé ekki göngu- og hjólastígur á milli Keflavíkur og Hafnarfjarðar.