Enn berst 66 Norður við netsvikara

Fannar Páll Aðalsteinsson, markaðsstjóri 66°Norður.
Fannar Páll Aðalsteinsson, markaðsstjóri 66°Norður. Samsett mynd/mbl.is/Árni Sæberg

„Við erum að fylla út form hjá hinum og þessum til að stoppa þetta og senda út lögfræðibréf og fleira en þetta poppar ennþá upp hér og þar.

Við höfum hvatt okkar fylgjendur og viðskiptavini til að tilkynna ef þeir verða varir við síðuna.“

Þetta segir Fannar Páll Aðalsteinsson, markaðsstjóri 66°Norður, í samtali við mbl.is en fyrirtækið er nú í annað sinn á tveimur mánuðum að berjast við netsvikasíðu sem misnotar vörumerki fyrirtækisins til að reyna að hafa fé af fólki.

Auglýsa brunaútsölu á vörum 66°Norður

Þegar svikasíðan á facebook var sett í loftið í september tókst fyrirtækinu að ná tökum á málinu með bæði samskiptum við facebook og því að biðja fólk að tilkynna síðuna þannig að henni var á endanum lokað. Fannar segir að svo virðist sem einhver árangur hafi náðst.

„Síðan liggur að minnsta kosti niðri sem stendur. Vonandi hefur okkur tekist að stoppa þetta.“

Netsvik eru að aukast og Fannar segir fyrirtæki svolítið berskjalda fyrir þeim.

„Þetta er á milli landamæra og það er erfitt að benda á hver er ábyrgur í að hafa eftirlit með þessu og sjá til þess að vörumerkjaréttindi séu virt.“

Aðferð svikahrappana sem 66°Norður hefur verið að berjast við er með þeim hætti að auglýsingar eru birtar í nafni fyrirtækisins á facebook-síðu sem látin er líta út fyrir að vera á vegum fyrirtækisins.

Þar er sagt að fyrirtækið hafi þurft að loka verslun sínum í ákveðnum löndum og borgum og þess vegna sé brunaútsala á vörum með allt að 80-90% afslætti. Frá facebook er fólk í kjölfarið leitt inn á falska vefverslun þar sem það er látið kaupa vöru sem aldrei berst og gefa upp kortaupplýsingar í tengslum við kaupin.

Skjáskot

Býður eingöngu afslætti á útsölumörkuðum

Fannar segir auglýsingarnar vera á ensku og að þeim sé bæði beint að Íslendingum og fólki erlendis. Þó segir hann að auglýsingarnar hafi verið sérstaklega áberandi hérlendis.

„Það er verið að skálda að við séum að loka verslunum í löndum og borgum þar sem við höfum aldrei verið með starfsemi og bjóða mjög háa afslætti á vörum sem fólk finnur annars á okkar vefsíðu.

Þarna er verið að stela vörulýsingum, vörumyndum og öllu sem er svo sett upp í búning eins og um sé að ræða okkar verslun. Oft eru vörulýsingarnar bara „copy/paste“ af okkar vefverslun.“

Svikahrapparnir bjóða allt að 90% afslátt á vörum en Fannar segir að afslættir hjá 66°Norður séu á bilinu 30-60% af heildarverði vara úr gömlum vörulínum eða vörum sem uppseldar eru í ákveðnum stærðum.

Hann segir 66°Norður ekki taka þátt í afsláttardögum á netinu eins og „Black Friday“ eða „Singles' Day“. Vörur fyrirtækisins séu eingöngu á afslætti í útsölumörkuðum fyrirtækisins í Reykjavík og á Akureyri.

„Þessir afslættir eru svolítið ýktir og við bjóðum ekki svona afslætti, fáar verslanir gera það.“

Hann segir að auðvitað sé hægt að láta glepjast af þessu eins og öðru en hvetur fólk til að vera vakandi og hugsa sig tvisvar um ef eitthvað er of gott til að vera satt.

„Við fáum fullt af fyrirspurnum í gegnum þjónustuverið okkar, innsenda pósta og fleira. Því miður halda margir að þetta séu einhver gylliboð frá okkur sem þetta er alls ekki. Þarna er bara verið að misnota vörumerki og vörumerkjavild til að hafa pening af fólki.“

Erfitt að eiga við svona mál

Fannar segir að fyrirtækið hafi ekki fengið til sín sögur af fólki sem hefur orðið fyrir tjóni vegna svikasíðunnar en segir enda líklegra að fólk leiti beint til kortafyrirtækjanna um slíkt.

„Við höfum verið í sambandi við færsluhirðingafyrirtæki og fleiri sem við vinnum með, þannig að okkar samstarfsaðilar séu með þetta á sínum radar einnig.“

Hann segir erfitt að eiga við svona mál því svikahrapparnir geti alltaf stofnað nýja síðu hjá nýjum hýsingaraðila.

Aðferð svikahrappana sem 66°Norður hefur verið að berjast við er …
Aðferð svikahrappana sem 66°Norður hefur verið að berjast við er með þeim hætti að auglýsingar eru birtar í nafni fyrirtækisins á facebook-síðu sem látin er líta út fyrir að vera á vegum fyrirtækisins. Þar er sagt að fyrirtækið hafi þurft að loka verslun sínum í ákveðnum löndum og borgum og þess vegna sé brunaútsala á vörum með allt að 80-90% afslætti. Skjáskot/facebook

Ef það er of gott til að vera satt er það líklega ekki satt

„Við erum viss um að við séum að sjá fyrir endann á þessu en fyrst og fremst þurfa viðskiptavinir að vera vakandi fyrir þessu og fólk þarf að átta sig á því að það eru svik út um allt í kringum okkur á netinu.

Við hvetjum fólk til að kanna vefslóðir, hvort farið sé rétt með vörumerkjaheiti eða hvort verið sé að skapa einhvern misskilning til að plata fólk – að fólk hugsi sig tvisvar um áður en það hoppar á tilboð sem hljóma of vel.“

Í þessu eins og svo mörgu gildir hið fornkveðna að ef eitthvað er of gott til að vera satt þá er það líklega ekki satt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka