Erlendir sérfræðingar meta tjón á vatnsleiðslunni

Vestmannaeyjabær bíður nú upplýsinga frá erlendum aðilum.
Vestmannaeyjabær bíður nú upplýsinga frá erlendum aðilum. mbl.is/Árni Sæberg

Búið er að senda fyrirliggjandi upplýsingar um tjónið sem varð á vatnsleiðslunni sem liggur í sjó milli lands og Vestmannaeyja til erlendra sérfræðinga og framleiðanda leiðslunnar, sem skoða nú málið. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vestmannaeyjabæ. 

Bíða upplýsinga

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja segir stöðuna óbreytta frá því í gær og enn sé beðið eftir upplýsingum erlendis frá.

Hún segir þó að vonandi muni svör berast síðdegis í dag og að þá hafi þau í höndunum frekari leiðsögn og upplýsingar um hvernig viðgerð leiðslunnar skyldi háttað. 

Enn sem komið er er vatnið í bænum í góðu lagi, að sögn Írisar.

Íris segir að búið sé að berjast fyrir lögn nýrra vatnsleiðslu til Eyja í töluverðan tíma, en nú í sumar skrifaði ríkið undir viljayfirlýsingu ásamt Vestmannaeyjabæ þar sem að kallað var eftir lögn nýrra vatnsleiðslu og það flokkað sem almannavarnarmál. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert