Flugferðum aflýst vegna veðurs

Þó nokkrum flugum hefur verið aflýst í dag vegna veðurs.
Þó nokkrum flugum hefur verið aflýst í dag vegna veðurs. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þó nokkrum flugferðum bæði til og frá Keflavíkurflugvelli hefur verið aflýst í dag vegna slæmra veðurskilyrða, en gul viðvörun er nú í gildi víða um land. 

Veðurspá gerir ráð fyrir töluverðum vindi og einhverri úrkomu og er því möguleiki á því að flug til og frá Keflavíkurflugvelli og um innanlandsflugvelli raskist þangað til á morgun, miðvikudaginn 23. nóvember. 

Veðuraðgerðastjórnarfundi lauk í morgun

Að sögn Guðjóns Helgasonar, upplýsingafulltrúa Isavia, fór fram veðuraðgerðastjórnarfundur í morgun þar sem fulltrúar Veðurstofunnar og flugfélaganna ásamt rekstraraðilum fóru yfir veðurspána og þau áhrif sem veður næsta sólarhringinn gæti komið til með að hafa á starfsemi flugvallarins. 

„Tilgangurinn með þessum fundum er að stilla saman strengi þegar það er útlit fyrir að veður geti haft áhrif á þjónustuna á vellinum og þá í rauninni að bregðast við þannig að farþegar séu upplýstir og það verði ekki einhver áhrif af verðinu,“ segir Guðjón. 

Hvetja farþegar til að fylgjast grannt með

Aðspurður segist Guðjón ekki vita til þess að nokkur vandamál hafi komið upp í kjölfar tilfærslna á flugi í dag og hvetur hann farþega til þess að fylgjast með áframhaldandi gangi mála. 

„Við hvetjum til þess að farþegar fylgist vel með veðurspá og flugáætlunum, hvort sem það er hjá flugfélögunum sjálfum eða á vef Keflavíkurflugvallar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert