Forsetahjónin í opinbera heimsókn til Reykjavíkur

Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid.
Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid. mbl.is/Unnur Karen

Forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid koma í opinbera heimsókn til Reykjavíkur næstkomandi fimmtudag.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og eiginkona hans, Arna Dögg Einarsdóttir, taka á móti forsetahjónunum í Ráðhúsi Reykjavíkur og munu fylgja þeim vítt og breitt um borgina.

Heimsókninni verður sérstaklega fagnað með opnum viðburði á Kjarvalsstöðum klukkan 17 þar sem boðið verður upp á skemmtilega dagskrá, að því er segir í tilkynningu.

Forsetahjónin munu kynna sér starfsemi borgarinnar með sérstaka áherslu á framþróun Reykjavíkurborgar og nýja samfélagsgerð. Skólahljómsveit Vestur- og Miðbæjar tekur á móti þeim ásamt borgarstjórahjónunum og hefja þau daginn á að heilsa upp á starfsfólk borgarinnar sem og starfsfólk Grindavíkurbæjar sem er með aðstöðu í Ráðhúsinu um þessar mundir.  

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Forsetahjónin mun meðal annars heimsækja íslenskuver í Breiðholtsskóla, hitta börnin í fjölmenningarlega leikskólanum Ösp, funda með unglingum í Breiðholti, kynna sér félagsstarf ungra foreldra og eldri borgara og heimsækja Smiðjuna, sem er virknimiðstöð fyrir fatlað fólk í Grafarvogi.

Samfélagshúsið í Úlfarsárdal verður einnig sótt heim en það tengir saman Dalsskóla, Borgarbókasafnið, íþróttahús Fram og Dalslaug, nýjustu sundlaug Reykvíkinga. 

Borgarstjórahjónin munu einnig fylgja gestum sínum um kvikmyndaþorpið í Gufunesi og í Elliðaárdal þar sem starfsemi Orkuveitunnar hefur öðlast nýtt líf.

Um kvöldið verður hátíðarkvöldverður í Höfða en fyrst verður borgarbúum og öðrum gestum boðið að hitta forsetahjónin á Kjarvalsstöðum á milli klukkan 17 og 19. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert