Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokks, segir efnahags- og viðskiptanefnd koma til með að halda áfram að fylgjast með stöðunni og viðbrögðum fjármálafyrirtækja og gera það sem þurfi til að tryggja að viðbrögðin verði í takt við þá stöðu sem uppi er í Grindavík.
Þetta sagði Ágúst Bjarni er hann tók til máls á Alþingi í dag umræðu um störf þingsins.
Sagðist hann hafa óskað eftir því á sunnudaginn að bankastjórar viðskiptabankanna þriggja myndu mæta á fund efnahags- og viðskiptanefndar sem fyrst og brugðist hafi verið vel við þeirri beiðni á öllum vígstöðvum.
„Það er mikilvægt fyrir þingið að við fylgjumst vel með þeirri stöðu sem uppi er og þeirri stöðu sem við sem samfélag stöndum frammi fyrir á Reykjanesi og snertir auðvitað sérstaklega íbúa og fyrirtæki í Grindavík eins og er.
Það er ómögulegt, alveg sama þótt maður sé allur af vilja gerður, að setja sig í spor þeirra einstaklinga og fyrirtækja og fjölskyldna sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín, sem eru auðvitað griðastaður fólks. Þetta er alveg gríðarlegt rask á daglegu lífi ofan á alla þá óvissu sem til staðar er til framtíðar,“ sagði hann.
Fundurinn fór fram í morgun og nefnir Ágúst að hann hafi bæði verið góður og upplýsandi.
„Það liggur fyrir að Grindvíkingum hefur verið boðið upp á greiðsluskjól í fyrstu viðbrögðum fjármálastofnana við stöðunni en ég held að það sé líka öllum ljóst að viðbrögð þeirra verði önnur og meiri.“
Sagði hann að lokum að um væri að ræða samfélagslegt verkefni þar sem allir þyrftu að taka þátt og bregðast við með afgerandi hætti.
„Á ég þar við ríki, fjármálastofnanir, lífeyrissjóði, tryggingafélög og aðra. Það er ekki bara spurning um að geta heldur líka að verða og að sýna samfélagslega ábyrgð í verki.“