Íslenska liðið í opnum flokki á Evrópumóti landsliða í skák í Budva í Svartfjallalandi lauk keppni í gærkvöldi með því að gera jafntefli við Tyrki, 2-2. Öllum skákunum í þeirri viðureign lauk með jafntefli en þar var teflt til þrautar og tvær skákanna fóru yfir 100 leiki áður en keppendur sættust á skiptan hlut. Liðið endaði í 24. sæti af 38 liðum með 9 stig, vann fjórar viðureignir, gerði jafntefli í einni en tapaði fjórum.
„Við erum að yngja upp í liðinu og þessi árangur lofar góðu,“ sagði Ingvar Jóhannesson, annar tveggja liðsstjóra, við Morgunblaðið. „Við tefldum við mjög sterkar sveitir og unnum meðal annars bæði Norðmenn og Dani.“
Hjörvar Steinn Grétarsson, sem tefldi á 1. borði, náði bestum árangri í íslenska liðinu, fékk 4,5 vinninga í 8 skákum.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.