Mega biðja viðskiptavini með reiðufé um kennitölu og skilríki

Viðskiptavinurinn sendi inn kvörtun til Persónuverndar eftir að Byko gerði …
Viðskiptavinurinn sendi inn kvörtun til Persónuverndar eftir að Byko gerði honum að sýna fram á skilríki þegar hann greiddi fyrir vörur að andvirði 115 þúsund króna með reiðufé. mbl.is/Kristinn Magnússon

Persónuvernd hefur úrskurðað að byggingarvörufyrirtækinu Byko hafi verið heimilt að krefja viðskiptavin sinn um að framvísa kennitölu og persónuskilríkjum þegar hann hugðist greiða fyrir vörur með reiðufé. 

Í september á síðasta ári sendi viðskiptavinurinn kvörtun til Persónuverndar í kjölfar þess að honum var gert að sýna persónuskilríki sín og gefa upp kennitölu sína til skráningar er hann festi kaup á vörum að andvirði 115 þúsund króna. 

Taldi kröfuna skorta lagagrundvöll

Fram kemur í úrlausn Persónuverndar um málið að viðskiptavinurinn hafi ekki talið vera lagalegan grundvöll fyrir því að Byko kræfi viðskiptavini um skilríki þegar þeir versluðu með reiðufé fyrir meira en fimmtíu þúsund krónur. 

Vísaði viðskiptavinurinn þá til þess að í lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sé þess persónuupplýsinga einungis krafist ef fyrirtæki og fólk greiði með reiðufé fyrir vörur sem kosti yfir tíu þúsund evrur, eða rúmlega eina og hálfa milljón króna. Sú upphæð sé langt umfram þá sem um hafi verið að ræða í hans tilfelli.

Jafnframt tók viðskiptavinurinn það fram í greinargerð sinni að hann hafi ekki átt í viðskiptasambandi við Byko, heldur hafi verið um einstaklingsviðskipti að ræða. 

Byggingaiðnaður lengi álitinn áhættusamur

Í málflutningi Byko vísaði fyrirtækið einnig til laganna um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun fyrirtækja.

Þar tók fyrirtækið, sem skilgreint er sem umfangsmikið á íslenskum byggingavörumarkaði, fram að sem tilkynningaskyldur aðili bæri fyrirtækinu skylda að vinna áhættumat á samningssamböndum og einstaka viðskiptavinum, 

Byko byggði afstöðu sína einnig á því að byggingaiðnaður hafi lengi verið álitinn áhættusamur, þá sérstaklega með tilliti til skipulagðar brotastarfsemi og svartrar atvinnustarfsemi. Hafi það því verið niðurstaða áhættumats fyrirtækisins að herða reglur um móttöku reiðufjár í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að fyrirtækið yrði að vettvangi peningaþvættis. 

Skráningin nauðsynleg til að tryggja örugga persónugreiningu

Í úrskurði Persónuverndar kemur fram að við úrlausn málsins hafi verið horft til markmiðs laganna og til þess að Byko væri tilkynningaskyldur aðili. Því beri fyrirtækinu skylda til þess að hafa starfsemi sinni með þeim hætti að unnt sé að greina margar færslur sem tengist sama einstaklingi eða sömu viðskiptum. 

Taldi Persónuvernd því kröfu Byko um persónuupplýsingar viðskiptavinarins forsendu þess að fyrirtækið uppfyllti þá lagalegu skyldu lög kveða á um.

Hafi skráning kennitölu viðskiptavinarins þar af leiðandi bæði átt sér málefnalegan tilgang og verið nauðsynleg til þess að tryggja örugga persónugreiningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka