„Við þurf­um bara að gefa þessu aðeins meiri tíma“

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir bankann standa með sínum …
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir bankann standa með sínum viðskiptavinum en að það þurfi að gefa þessu aðeins meiri tíma. Samsett mynd/mbl.is/Eggert

Lilja Björk Ein­ars­dótt­ir, banka­stjóri Lands­bank­ans, er ekki tilbúin að úttala sig um frekari úrræði Landsbankans til handa viðskiptavinum sínum í Grindavík umfram það greiðsluskjól sem nú þegar er í boði til sex mánaða. Bankinn er með stóran hluta skuldbindinga íbúa í bænum.

Lilja segir í samtali við mbl.is, að loknum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis með forsvarsmönnum stóru viðskiptabankanna þriggja, að Landsbankinn sé að greina hvernig best sé að koma til móts við sína viðskiptavini. Hún segir bankann hvetja þá til að vera í sambandi.

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, sagði að loknum fundinum í dag að lík­lega þyrftu fjár­mála­fyr­ir­tæki að bjóða frek­ari úrræði sem fela í sér eft­ir­gjöf og niður­fell­ingu skulda.

Þurfum að gefa þessu aðeins meiri tíma

Þegar Lilja er spurð út í orð nöfnu sinnar bankamálaráðherra á Alþingi um að bankarnir þurfi að sýna meiri ábyrgð segir hún orð nöfnu sinnar skiljanleg. 

„Það eru allir með hjartað á réttum stað og það vilja allir hjálpa, við líka. Við þurfum bara að gefa þessu aðeins meiri tíma.“

Landsbankinn er eini bankinn með útibú í Grindavík og segir Lilja bankann eiga stóran hluta skuldbindinganna þar. Hún segir þó allar fjármálastofnanir, marga lífeyrissjóði og einhverja sparisjóði með viðskipti á svæðinu.

„Við munum að sjálfsögðu vinna með okkar viðskiptavinum og koma til móts við okkar viðskiptavini sem hluti af heildarlausn vátryggjenda, lífeyrissjóða, sveitarfélaga og stjórnvalda. Það er mjög mikilvægt að skapa ró og vinna saman.“

Greiðsluskjól til sex mánaða

Segir Lilja greiðsluskjól til sex mánaða í boði fyrir Grindvíkinga sem eru með lán í bankanum.

„Það þýðir að það þarf ekkert að greiða af neinum lánum, engar afborganir og enga vexti í sex mánuði.“

Hún segir að vaxtagreiðslum sem er frestað er bætt við höfuðstól lánsins tólf mánuðum eftir að greiðsluskjól hefst og lánstíminn lengist um þann tíma sem greiðsluskjólið varir. Vaxtagreiðslurnar sem frestast bera ekki vexti fyrr en að 12 mánuðum liðnum.

„Þetta gefur okkur ráðrúm til að skoða heildarsamhengi hlutanna á meðan þessir atburðir eru í gangi.

Þetta er það langskynsamlegasta sem við getum gert núna og hjálpar fólki að taka þessar áhyggjur burt úr lífinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert