Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra segist ekki skynja annað en vilja fjármálastofnana til þess að vera hluti af lausn í málefnum Grindvíkinga en kvartað hefur verið yfir útspili banka og lánastofnanna hvað varðar skuldamál þeirra.
Þórdís Kolbrún ræddi við mbl.is eftir fund ríkisstjórnarinnar í Ráðherrabústaðnum í morgun.
„Fundurinn snerist að langmestu leyti um málefni Grindvíkinga. Við vorum að fara yfir stöðu á vinnu sem er í gangi víða í stjórnkerfinu. Við vitum að það er óþreyja hjá fólki sem býr við mikla óvissu og hluti af málefnum Grindvíkinga er kominn inn á borð þingsins eins og varðandi afkomutryggingu,“ sagði Þórdís Kolbrún við mbl.is.
Hún segir að vinna sé í gangi varðandi afborganir fólks af lánum sínum og skilda þætti og það sé mjög mikilvægt að fólk fái einhver svör varðandi húsnæðismálin.
Fjárlagafrumvarpið er til meðferðar hjá fjárlaganefnd og önnur umræða um frumvarpið verður á næstu dögum að sögn Þórdísar. Hún segir að fjárlaganefnd hafi borist tillögur frá ríkisstjórn.
„Varðandi málefni Grindvíkinga er það sér mál vegna þess að við vitum ennþá svo lítið um umfangið og þar að leiðandi kostnaðinn,“ segir Þórdís.
Komið hefur fram að áætlaður kostnaður við gerð varnargarðanna verði 2,5-3 milljarðar króna.
„Sú framkvæmd er farin af stað en ráðstafanir á móti og svo eru önnur úrræði sem við vitum að munu kosta. Verkefnið fyrir fjárveitingavaldið, sem er Alþingi, er að finna út úr því á næstu vikum.
Fyrsta útspil fjármálastofnanna varðandi lánamál Grindvíkinga hlaut ekki góðan hljómgrunn og í gær sagðist Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskipta- og menningarmálaráðherra, að gripið yrði til hressilegra aðgerða sýni fjármálastofnanir ekki fulla samfélagslega ábyrgð í málefnum Grindvíkinga. Spurð út í þessi ummæli Lilju sagði Þórdís Kolbrún:
„Við erum í samtali við fjármálakerfið og ég skynja ekki annað en vilja fjármálastofnana til þess að vera hluti af lausninni. Þær vita þegar kemur að leiðum, uppgjöri og öðru þá hafa þær hlutverki að gegna. Ég get vel skilið ýmis sjónarmið um hversu hratt og sjálfasagt hlutirnir eigi að gerast. Í svona aðstæðum þarf bæði að hlusta og skynja, líka anda ofan í maga og vanda til verka,“ segir Þórdís Kolbrún.
Hún segir að samtalið við fjármálastofnanir gangi vel og gerir ráð fyrir því að hægt sé að finna leiðir sem hægt verði að kynna.
„Bankarnir hafa mismunandi hlutverki að gegna. Þeir eru mis umsvifamiklir á svæðinu. Ég skynja ekki annað en bæði vilja og raunsæi hjá fjármálastofnunum að mæta hverjum og einum viðskiptavini og líka mögulega með almennri nálgum því fólk er í mismunandi stöðu og er að hugsa sín skref með ólíkum hætti.“