Stefnt er að jafnvægi í Mýrdal

Horft yfir Víkurkauptún.
Horft yfir Víkurkauptún. mbl.is/Sigurður Bogi

„Framboð á íbúðarhúsnæði hér þarf að vera meira. Samningar við ríkið nú eru svar við þeim aðstæðum þannig að byggðin hér geti haldið áfram að dafna,“ segir Einar Freyr Elínarson sveitarstjóri Mýrdalshrepps.

Undirritaður hefur verið samningur milli sveitarfélagsins, innviðaráðuneytis og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um aukið framboð íbúðarhúsnæðis í sveitarfélaginu á næstu árum eða fram til 2032. Á þessu tímabili er ætlunin að byggja 200 íbúðir, þar af 94 á næstu fimm árum.

Íbúum í Mýrdal hefur fjölgað mjög á síðustu árum og þar eru aukin umsvif í ferðaþjónustu stór áhrifaþáttur. Á sl. ári fjölgaði Mýrdælingum um 10% og nú eru þeir 973. Þessu fylgir að meira húsnæði þarf og nú er verið að byggja tvö fjölbýlishús í Vík. Í öðru þeirra verða 13 íbúðir, þar af sex í eigu húsnæðissamvinnufélagsins Brákar. Ríki og sveitarfélag veita félaginu stofnframlag sem nemur fjórðungi af byggingarkostnaði. Einar Freyr telur líklegt að uppbygging næstu ára í Mýrdal verði einmitt með líku lagi.

„Hröð uppbygging verslunar og þjónustu hefur leitt af sér mikinn þrýsting á markaði. Því eru það tímamótaskref fyrir okkur að marka skýra stefnu um áframhaldandi uppbyggingu sem miðar að jafnvægi,“ segir sveitarstjóri.

Sveitarstjórn Mýrdalshrepps samþykkti nýlega samstarf við Arkitektafélags Íslands í samkeppni um skipulag á nýju 200 íbúða hverfi austast í Víkurþorpi. Aðalskipulag gerir ráð fyrir að þar verði reist íbúðarhús af fjölbreyttum gerðum svo og ýmsar byggingar fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert