„Þetta var eng­in hót­un“

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, segist ekki hafa verið að hóta fjármálastofnunum þegar hún sagði í ræðustól Alþingis í gær að hún útilokaði ekki hressilegar aðgerðir sýni fjármálastofnanir ekki fulla samfélagslega ábyrgð í málefnum Grindvíkinga.

„Þetta var engin hótun. Fólkið í Grindavík þarf að fá skýr svör og það er algjört lykilatriði að ríkissjóður og fjármálastofnanir vinni saman í þessu máli. Íbúar Grindavíkur eru að upplifa gríðarlega óvissu og þeir þurfa aðstoð okkar allra. Það er algjör samstaða í ríkisstjórninni hvað þetta varðar og mér skilst að það sé skilingur á þessu hjá lánastofnunum,“ sagði Lilja við mbl.is eftir fund ríkisstjórnarinnar í dag.

Lilja segir að eftir ríkisstjórnarfundinn sé hún mjög vongóð um að það fáist skýrari svör við því að fólk fái vissu um afkomutryggingu annars vegar og hins vegar húsnæðisskjól.

„Við höfum verið í samtölum við íbúa Grindavíkur. Staða þeirra er auðvitað mismunandi eftir því hvar húsin þeirra eru. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur farið í góða vinnu með fjármálastofnunum og ég er bara mjög vongóð um að það sé gagnkvæmur skilningur hjá öllu okkar samfélagi gagnvart málefnum Grindvíkinga,“ segir Lilja Dögg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert