Þurftu að stöðva framkvæmdir vegna veðurs

Nýtt hættumat á Reykjanesskaga var birt í gær.
Nýtt hættumat á Reykjanesskaga var birt í gær. mbl.is/Eyþór Árnason

„Vinna við garðana var eiginlega stoppuð í nótt. Helgast það svolítið af veðrinu en Veðurstofan gaf það út að hún gæti ekki vaktað svæðið tryggilega með loftgæðamælum þannig að við tókum þá ákvörðun að stoppa í nótt og ætlum að stoppa líka í dag. Við munum svo endurmeta stöðuna seinni partinn í dag, áður en næturvaktin á að byrja. Þannig að þetta er staðan í augnablikinu.“

Þetta segir Arnar Smári Þorvarðarson, byggingatæknifræðingur hjá Verkís, inntur eftir því hvort nýtt hættumat, sem gefið var út í gær, hafi að einhverju leyti breytt áformum við uppbyggingu varnargarðanna á Reykjanesskaga.

Komnir langt með fyrsta áfanga

Segir Arnar Smári að vinnunni hafi miðað ágætlega áfram en unnið hafi verið dag og nótt á 12 tíma vöktum við uppbygginguna.

„Við erum komnir alls staðar af stað og meðfram Sundhnúkagígum, þar erum við komnir nokkuð langt með þennan fyrsta áfanga sem við ráðgerðum, austan við Grindavíkurveg að Sýlingarfelli. Þar er nú kominn þó nokkuð hár garður.“

Að sögn Arnars Smára vinnur hópurinn, sem telur rúmlega 50 manns, hörðum höndum að því að klára verkið hratt og vel.

„Að vissu leyti er þetta kapp við tímann en auðvitað sjáum við ekki það sem er að ógna okkur enn þá eða verðum varir við það. En við vinnum dag og nótt, á 12 tíma vöktum í senn,“ segir hann.

Þriggja metra hæð afstæð

Spurður út í það hvort hækka þurfi varnargarðana í ljósi aukins landriss við Svartsengi síðustu daga segir Arnar Smári þess ekki þurfa.

„Nei, ekki hvað hækkun þeirra varðar. Við erum bara að keppast við að taka þennan fyrsta áfanga sem er að fara upp í þriggja metra hæð. Við forgangsröðum áfangaskiptingum þeirra miðað við þá ráðgjöf sem við fáum frá eldfjallafræðingum og miðað við rennslisspár, hvar hraunið gæti komið upp. Það tekur svolítið mið af því hvernig við áfangaröðum garðinum.“

Segir hann í framhaldinu að byrjað hafi verið við Sýlingarfellið og unnið til vesturs en í gær hafi svo vinna við Þorbjörn hafist, á því svæði garðsins sem er lengst til suðurs. 

Alls vinna um 50 manns á dag- og næturvöktum við …
Alls vinna um 50 manns á dag- og næturvöktum við uppbyggingu varnargarðanna á Reykjanesskaga. mbl.is/Eyþór Árnason

En hvað með áætluð verklok, sjá þeir fyrir sér hvenær garðarnir verða tilbúnir?

„Þessi fyrsta vika var þannig að við vorum bara einbeittir að keyra, keyra og keyra eins og hægt er, en menn eru svolítið að horfa á það núna kannski í vikunni að stilla upp einhverri raunhæfri tímaáætlun um þetta,“ segir hann. 

„Við erum búnir að vera að ná þessum fyrsta áfanga í hæð, erum að nálgast það á fellinu við Sundhnúkagíga. Erum ekki komnir með það alla leið en erum að keppa við það.“

Tekur hann fram að þessir umræddu þrír metrar séu í rauninni svolítið afstæðir.

„Ef við horfum til þess að ná þriggja metra hæð yfir svona hápunkta, það er að segja þar sem hraunið flæðir, að þá viljum við vera þrjá metra yfir þeim. Sem þýðir svona innan gæsalappa að þrír metrar geta orðið fimm eða sex metrar einhvers staðar, “ segir hann og bætir við að þannig verði varnargarðarnir töluvert hærri sums staðar með tilliti til hraunflæðilíkananna.

Menn standa enn þá keikir 

Inntur eftir líðan starfsmanna á svæðinu svarar Arnar Smári því til að fólki líði almennt ágætlega. 

„Við verkstjórarnir höfum rætt það á þessum öryggisfundum að menn láti vita ef þeir treysta sér ekki til að vera hérna. Þá tökum við á því og reynum að færa menn til en það hefur ekki komið neitt slíkt upp. Menn standa allir keikir hérna enn þá,“ segir hann og bætir við að lokum að það sé áréttað á öllum fundum að það hafi allir skilning á því ef einhverjum líði illa við þessar aðstæður og treysti sér ekki til að vinna á svæðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert