Vending í máli Hussein Hussein og fjölskyldu

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu að framlengja bann …
Mannréttindadómstóll Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu að framlengja bann við að senda Hussein Hussein úr landi. Ljósmynd/Aðsend

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur tilkynnt um að bann við að vísa hælisleitandanum Hussein Hussein úr landi hafi verið framlengt. Hins vegar hafi banni við að senda fjölskyldu hans úr landi verið aflétt. 

„Ég get staðfest að dómstóllinn tilkynnti að búið sé að framlengja bann við brottvísun Hussein Hussein en aflétta banninu gagnvart fjölskyldu hans,“ segir Fanney Rós Þorsteinsdóttir ríkislögmaður í samtali við mbl.is innt eftir stöðu málsins. 

Segir hún jafnframt mikilvægt að það komi fram að ekki sé um úrskurð Mannréttindadómstólsins að ræða, heldur sé í gangi ákveðin málsmeðferð.  

Rúv greindi fyrst frá.

Verið synjað tvisvar um alþjóðlega vernd

Hus­sein Hussein, fötluðum flóttamanni frá Írak, og fjöl­skyldu hans hef­ur verið synjað um alþjóðlega vernd tvisvar hér á landi og synjaði Alþingi um­sókn þeirra um rík­is­borg­ara­rétt fyrr á ár­inu.

Fjöl­skyld­an var fyrst flutt úr landi til Grikk­lands í nóv­em­ber í fyrra, í kjöl­far fyrri synj­un­ar. Hún fékk þó að snúa aft­ur eft­ir að héraðsdóm­ur ógilti úr­sk­urðinn.

Til stóð svo að flytja fjöl­skyld­una af landi brott þann 11. nóv­em­ber síðastliðinn en síðan barst henni til­kynn­ing að brott­flutn­ingn­um yrði flýtt til 7. sama mánaðar. Vildi fjölskyldan ekki fá á sig endurkomubann og valdi því að fara sjálfviljug úr landi. Hefði lög­regla þurft að fjar­lægja þau með valdi, líkt og í fyrra skiptið, hefði fjöl­skyld­an staðið frammi fyr­ir end­ur­komu­banni.

Ekki mátti vísa fjölskyldunni úr landi fyrr en í dag

Sá úr­sk­urður var hins vegar kveðinn upp þann 31. október af Mann­rétt­inda­dóm­stól Evr­ópu að ekki mætti vísa Hus­sein Hus­sein og fjöl­skyldu hans af landi brott fyrr en í fyrsta lagi 21. nóv­em­ber.

Í kjölfarið sendi Mann­rétt­inda­dóm­stóll­inn fimm spurn­ing­ar til ís­lenskra stjórn­valda og var þeim gert að svara þeim fyr­ir 8. nóv­em­ber. Þá er afar sjaldgæft að Mannréttindadómstóllinn beiti bráðabirgðaíhlutun gagnvart Íslandi en það hefur einungis gerst einu sinni áður. 

Mannréttindadómstóllinn hefur nú hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að framlengja bann við brottvísun Hussein Hussein en aflétta banni gagnvart fjölskyldu hans, móður, bróður og tveggja systra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert