Vinna varnargarða í kappi við tímann

Í forgrunni má sjá varnargarðana rísa. Horft er í suðvestur …
Í forgrunni má sjá varnargarðana rísa. Horft er í suðvestur að virkjuninni. Sýlingarfell er á vinstri hlið og álengdar glittir í fjallið Þorbjörn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Unnið er nótt sem nýtan dag að því að reisa varnargarða umhverfis virkjunina í Svartsengi, sem sér tugþúsundum fólks fyrir rafmagni og heitu vatni. Landsnet gerir nú ráðstafanir til að hækka möstur í Svartsengislínu 1 sem liggur frá orkuverinu til tengivirkisins við Rauðamel. Er það gert til að varnargarðarnir sem nú rísa hafi ekki áhrif á línuna.

HS Veitur munu bráðlega hefja borun til að koma upp varavatnsbóli við Árnarétt í Garði. Er það vegna þeirrar ógnar sem mögulega steðjar að vatnsbólinu í Lágum í Svartsengi. Vatnsbólið sér bæði Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ, eða um 25 þúsund manns, fyrir neysluvatni. Áætlað er að framkvæmdin muni taka um þrjár vikur.

Enn mælist mikið og hratt landris við Svartsengi. Ný gögn frá Veðurstofunni staðfesta að kvika flæði áfram þar undir.

Veðurstofan gaf í gær út nýtt hættumat og kort fyrir svæðið í kringum Grindavík og Svartsengi. Hættusvæðið var stækkað og því skipt í þrennt eftir alvarleika hættunnar. Mestar líkur eru taldar á að kvika komi upp fyrir miðjum kvikuganginum við Hagafell og Þorbjörn. 

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert