Ekki er hægt að nota salerni í neinu húsi í Grindavík vegna þess að þar er hvorki virkt frárennsli né rennandi vatn. Almannavarnir mæla einnig með því að Grindvíkingar mæti með eigið vatn og mat ef þeir hyggjast sækja verðmæti heim til sín.
Tilkynnt var síðdegis að farið yrði af neyðarstigi og niður á hættustig við Grindavík frá og með klukkan 11 fyrir hádegi á morgun.
Íbúum verður heimilt að fara inn í Grindavík næstu daga til að sækja verðmæti og huga að eigum sínum frá klukkan 9 að morgni, til klukkan 16.
Í kjölfar tilkynningarinnar gáfu almannavarnir út nokkur aukatilmæli á bandaríska miðlinum Facebook, til viðbótar þeim sem greint var frá í tilkynningunni. Þar er meðal annars mælt með því að fólk komi með vatn og önnur matföng fyrir daginn því ekki er hægt að nálgast slíkt í bænum.
Ekki er ætlast til þess að íbúar fari inn í húsin til að flytja búslóðir í burtu, heldur að fólk geti tekið með sér helstu verðmæti og fatnað. Íbúar í skemmdum húsum hafa fengið leyfi til búslóðaflutninga úr þeim húsum.
Grindavíkurvegur er enn lokaður, en hægt er að aka Nesveg og Suðurstrandarveg.
Mælst er til þess að fólk komi á eigin bílum en að hámarki má einn bíll frá hverju heimili fra inn í bæinn. Ekki er æskilegt að börn séu tekin með.
Gámabílar, gámar eða gámaflutningatæki, stórir sendibílar og kassabílar eru ekki leyfðir í íbúðahverfum vegna hættu á því að þau tefji eða hindri aðra umferð.
Mikilvægt er að hvert og eitt heimili skrái hjá sér þau verðmæti sem tekin eru úr húsunum og hafi samband við sitt tryggingafélags vegna þess. Hafa ber í huga að hús gætu verið ótrygg.
Eigendur húsa fá svigrúm til þess að koma kyndingu í lag en von er á kólnandi veðri á næstunni.
Komi til rýmingar vegna hættuástands munu viðbragðsaðilar þeyta sírenum og ljósmerkjum á ökutækjum og þýðir það tafarlaus rýming á svæðinu samkvæmt rýmingaráætlun eftir flóttaleiðum A og B. Mikilvægt er að allir sem fara í Grindavík fylgi tilmælum viðbragðsaðila á öllum stundum.
Athygli er vakin á að á sama tíma og íbúar fá aðgang eru aðrar aðgerðir í gangi í bænum. Iðnaðarmenn og íbúar eru að störfum í húsum þar sem hitaveita er ekki í lagi.