Breytingarnar verði endurskoðaðar án tafar

Wegovy og Saxenda eru framleidd af danska lyfjarisanum Novo Nordisk.
Wegovy og Saxenda eru framleidd af danska lyfjarisanum Novo Nordisk. AFP/Sergei Gapon

Breytingar á greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands á lyfjum sem notuð eru til að meðhöndla offitu og fyrirbyggja alvarlega fylgisjúkdóma offitu leiða til mismununar sjúklinga eftir efnahag og hindra heilbrigðisstarfsfólk í að veita viðeigandi meðferð í baráttu við einn stærsta heilsufarsvanda þjóðarinnar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Þar kallar hún eftir því að breytingar á greiðsluþátttöku á lyfjunum Wegovy og Saxenda, sem notuð eru til að meðhöndla offitu, verði endurskoðaðar án tafar. Sérfræðingar stofnunarinnar séu boðnir og búnir til að koma að vinnu við þá endurskoðun til að tryggja hagsmuni skjólstæðinga heilsugæslunnar.

Sjúkratryggingar Íslands.
Sjúkratryggingar Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi

„Meðferð með lyfjunum Wegovy og Saxenda getur gagnast hópi einstaklinga með sjúkdóminn offitu vel en með hertum skilyrðum fyrir greiðsluþátttöku er ljóst að fáir geta nýtt sér meðferð með lyfjunum. Heilsugæslan vekur athygli á því að með því að nýta þessi lyf með réttum hætti þar sem það á við er líklegt að hægt sé að bæta heilsu fjölda einstaklinga og um leið spara samfélaginu háar upphæðir vegna heilbrigðisþjónustu við þessa einstaklinga í framtíðinni,” segir í tilkynningunni.

„Með því að takmarka niðurgreiðslu á lyfjunum verulega er efnaminni sjúklingum mismunað enda geta efnameiri sjúklingar eftir sem áður notað lyfin með því að greiða fyrir þau að fullu sjálfir. Slík mismunun gengur beint gegn réttindum sjúklinga.

Þá hindra breytingarnar möguleika heilbrigðisstarfsfólks til að veita bestu mögulegu þjónustu í samræmi við klínískar leiðbeiningar enda lyfin ekki niðurgreidd fyrr en vandinn er löngu orðinn aðkallandi.

Offita er langvinnur efnaskiptasjúkdómur sem mikilvægt er að meðhöndla ævilangt með réttum aðferðum á mismunandi stigum sjúkdómsins til að draga úr líkum á margvíslegum áhættuþáttum og fylgisjúkdómum.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert