Dælubúnaður gæti kælt hraun og beint því frá byggð

Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, greindi frá þessu fyrr í dag.
Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna, greindi frá þessu fyrr í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Til skoðunar er að fá öflugar dælur hingað til lands sem gætu mögulega nýst til að kæla hraun og beina því frá byggð og innviðum. Hópur sérfræðinga er væntanlegur til landsins í dag sem mun leggja mat á hvort dælubúnaðurinn komi að gagni.

Þetta kom fram í máli Víðis Reynissonar, sviðsstjóra almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, á upplýsingafundi almannavarna.

Dvelja á landinu í nokkra daga

„Eitt af því sem unnið hefur verið að undanfarið er að kanna hvort hægt sé að fá öflugar dælur sem gætu nýst við að kæla hraun til þess að hægja á því eða beina því frá byggð eða mikilvægum innviðum,“ sagði Víðir á fundinum.

„Í dag kemur til landsins hópur sérfræðinga úr almannavarnasamstarfi okkar í Evrópu. Þau munu skoða aðstæður og leggja mat á hvort sá búnaður sem okkur stendur til boða komi að gagni við slíka vinnu. Í hópnum eru sérfræðingar á sviði notkunar á svona dælubúnaði, eldfjallafræðingar og sérfræðingar í hamfarastjórnun.“

Að sögn Víðis mun hópurinn dvelja hérna á landi í nokkra daga og í framhaldinu skila tillögum um næstu skref. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert