Fimm heimili rafmagnslaus og þrjú án heits vatns

Horft yfir Grindavík.
Horft yfir Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Af þeim 1.200 heimilum sem eru í Grindavík eru þrjú heitavatnslaus og fimm rafmagnslaus vegna skemmda í dreifikerfi HS Veitna.

Í tilkynningu frá HS Veitum segir að vel hafi gengið síðustu daga að koma á hita og rafmagni í hús sem urðu rafmagns- og heitavatnslaus í þeim náttúruhamförum sem hafa riðið yfir Grindavík síðustu vikur.

Staða hitaveitunnar er eftir okkar bestu upplýsingum þannig að af 1.200 heimilum eru 3 hús heitavatnslaus vegna skemmda á dreifikerfinu,“ segir í tilkynningunni.

Þar er aftur á móti bent á að 54 hús virðist ekki vera að nota heitt vatn þó þau séu að fá heitt vatn til sín. Ástæðan geti verið af ýmsum toga sem tengist fasteignunum sjálfum. Pípulagningasveit á vegum almannavarna kannar aðstæður í þessum húsum á næstu dögum í samráði við húseigendur.

Dreifikerfi HS Veitna í Grindavík eru víða löskuð eftir stöðuga …
Dreifikerfi HS Veitna í Grindavík eru víða löskuð eftir stöðuga jarðskjálfta, jarðsig og gliðnun. Hér má sjá hitaveiturör sem hafði slitnað í sundur neðanjarðar í Grindavík: Ljósmynd/Aðsend

31 hús virðist ekki vera að nota rafmagn

Fimm hús eru rafmagnslaus vegna skemmda í dreifikerfinu. Samt sem áður virðast 31 hús ekki vera að nota rafmagn þó þau fái rafmagn til sín. Ástæður þess geti einnig verið af ýmsum toga. Rafvirkjasveit á vegum almannavarna kannar aðstæður í þessum húsum á næstu dögum í samráði við húseigendur.

Upplýsingarnar eru byggðar á þeim gögnum sem fyrir liggja hjá HS Veitum á þessum tíma í ljósi aðstæðna, en að þeirra sögn er ekki hægt að tryggja fullkomna vissu stöðu einstakra húsa né fulla mynd af stöðunni í Grindavík.

Í ljósi þess að jarðsig og gliðnun halda áfram í Grindavík er ómögulegt að segja hvert framhaldið verður, að sögn HS Veitna. Sérstaklega er varað við hættu sem skapast af heitu vatni á yfirborði eða í skurðum og vegna laskaðra raforkumannvirkja og strengja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert