Erlendir og innlendir fjölmiðlar baksa á móti vindinum í Grindavík þar sem gul viðvörun vegna veðurs er nú í gildi.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri Suðurnesja, tilkynnti á upplýsingafundi almannavarna í morgun að fjölmiðlum yrði veittur greiðari aðgangur en áður að lokuðum svæðum.
Rúta með erlendum fréttamönnum lagði af stað frá fjölmiðlamiðstöðinni í Hafnarfirði klukkan 13 í dag og mættu íslenskir fjölmiðlar rútunni við Grindavíkurafleggjara og fóru að bænum í fylgd lögreglu.
Á meðfylgjandi myndum má sjá fréttamennina athafna sig í vonda veðrinu, virða fyrir sér sprungur og skemmdir sem hafa orðið á gatnakerfinu undanfarnar tvær vikur.