Fjölmiðlar munu fá greiðari aðgang að Grindavík í dag. Þetta tilkynnti Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri Suðurnesja, á upplýsingafundi almannavarna rétt í þessu.
Eins og mbl.is greindi frá skömmu áður en fundurinn hófst hefur Blaðamannafélag Íslands kært fyrirmæli lögreglustjórans um að takmarka aðgang fjölmiðla að hættusvæðinu.
„Samstarf við fjölmiðla hefur verið gott. En á sama tíma hafa þeir kvartað undan því að hafa ekki fengið að fara inn á lokuð svæði núna síðustu daga og lögreglustjórinn á Suðurnesjum í samstarfi við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra komi til með að lyfta þessu banni. Þannig að í dag hafa fjölmiðlamenn greiðari aðgang að þessu svæði,“ sagði Úlfar Lúðvíksson.
„En á sama tíma bið ég ykkur að hafa í huga að ástæða þess að takmarkanir hafa verið settar á er fyrst og fremst í tillitsemi við þá sem að í Grindavík búa,“ bætti hann svo við.