Forsetahjónin kynna sér breytt samfélag í Reykjavík

Er þetta fyrsta opinbera heimsókn forseta Íslands til Reykjavíkur í …
Er þetta fyrsta opinbera heimsókn forseta Íslands til Reykjavíkur í um 37 ár. Samsett mynd

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Reid forsetafrú fara í opinbera heimsókn til Reykjavíkur á morgun.

Þar munu þau kynna sér starfsemi borgarinnar, þróun hennar og breytta samfélagsgerð, að því er segir í tilkynningu. Í lok dags verður opinn viðburður á Kjarvalsstöðum þar sem borgarbúum og öðrum gestum er boðið að hitta forsetahjónin og njóta skemmtidagskrár fyrir alla fjölskylduna.

Frá þessu er greint í tilkynningu frá Bessastöðum en þetta er fyrsta opinbera heimsókn forseta Íslands til borgarinnar frá árinu 1986, þegar Vigdís Finnbogadóttir heimsótti Reykjavík á 200 ára afmæli borgarinnar.

Heilsa upp á starfsfólk Grindavíkur

Heimsóknin hefst í ráðhúsi Reykjavíkur þar sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Arna Dögg Einarsdóttir, eiginkona hans, taka á móti forsetahjónunum, ásamt Skólahljómasveit Vestur- og Miðbæjar.

Þar heilsa forsetahjónin upp á starfsfólk borgarinnar en einnig starfsfólk Grindavíkurbæjar sem hefur aðstöðu í Ráðhúsinu um þessar mundir, þar sem búið er að rýma Grindavíkurbæ vegna yfirvofandi eldgoss.

Heimsækja skóla og leikskóla

Forsetinn og forsetafrú fara síðan um borgina í fylgd borgarstjórahjóna og verður sjónum einkum beint að nýrri hverfum borgarinnar austan Elliðaáa.

Forsetahjónin heimsækja einnig íslenskuver í Breiðholtsskóla, hitta börnin í fjölmenningarlega leikskólanum Ösp, funda með unglingum í Austurbergi og með sendiherrum ólíkra málhópa í Gerðubergi.

Þá heimsækja þau Smiðjuna, sem er virknimiðstöð fyrir fólk með fötlun í Grafarvogi, og líta inn á fimleikaæfingu eldri borgara í Árbæ. Hverfismiðstöðin í Úlfarsárdal verður einnig skoðuð en þar tengjast skóli, bókasafn, íþróttahús og nýjasta sundlaug borgarinnar í einum kjarna.

Samkoma á Kjarvalsstöðum

Forsetahjónin munu einnig kynna sér starfsemi nýja kvikmyndaþorpsins í Gufunesi og heimsækja Elliðaárdal þar sem starfsemi Orkuveitunnar hefur öðlast nýtt líf á sögulegum stað.

Kl. 17 hefst síðan samkoman á Kjarvalsstöðum sem öllum borgarbúum er boðið til. Heimsókn forsetahjóna til Reykjavíkur lýkur svo með hátíðarkvöldverði í Höfða í boði borgarstjóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert