Fullvissar erlenda fjölmiðla um öryggi Íslands

Lilja sagði í viðtölum við erlenda fjölmiðla að Ísland væri …
Lilja sagði í viðtölum við erlenda fjölmiðla að Ísland væri öruggur áfangastaður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra heimsótti fjölmiðlamiðstöðina í Hafnarfirði í dag og fullvissaði erlenda fjölmiðla um að Ísland væri öruggur áfangastaður fyrir ferðamenn þrátt fyrir jarðhræringar.

Erlendir fjölmiðlar og fólk á samfélagsmiðlum hefur að undanförnu farið með mjög misvísandi fullyrðingar um ástandið á Íslandi vegna óvissu um jarðhræringa. Flugfélögin Play og Icelandair hafa tekið eftir því að bókunum hefur fækkað.

„Það er gríðarlega mikilvægt að sporna við allri upplýsingaóreiðu í tengslum við eldvirknina á Reykjanesskaga í fjölmiðla- og samfélagsmiðlaumfjöllun erlendis. Skilaboðin okkar til ferðamanna eru mjög skýr, Ísland er opið og öruggt land til að heimsækja,“ er haft eftir Lilju í tilkynningu frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu.

Útskýrði að jarðhræringar væru staðbundnar

Ráðherra var, að sögn tilkynningarinnar, spurð út í mögulegar sviðsmyndir vegna jarðhræringa á Reykjanesi og áhrif þeirra á ferðaþjónustuna. Ræddi hún um samhug og stuðning við Grindvíkinga sem hún sagði í forgangi að hlúa að, flugsamgöngur og viðbragðsáætlun stjórnvalda og ferðaþjónustunnar, að er kemur fram í tilkynningunni.

„Jarðhræringarnar eru staðbundnar, hugað er að öryggi íbúa og ferðamanna í hvívetna og flugáætlanir til og frá landinu hafa ekki raskast,“ er haft eftir Lilju.

Jó­hann­es Þór Skúla­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka ferðaþjón­ust­unn­ar, sagði við mbl.is fyrr í vikunni að til­von­andi ferðamenn til lands­ins væru sum­ir hverj­ir farn­ir að af­bóka ferðir sín­ar eða færa þær til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert